Landsliðskonurnar Díana Dögg Magnúsdóttir og Sandra Erlingsdóttir eru á meðal 20 markahæstu í þýsku 1. deildinni í handknattleik að loknum átta umferðum. Hlé hefur verið gert á keppni í deildinni vegna heimsmeistaramótsins sem hefst undir lok mánaðarins og þráðurinn tekinn upp á nýjan leik 27. desember.
Díana Dögg, sem leikur með BSV Sachsen Zwickau, er í 12. sæti með 39 mörk í átta leikjum, eða 4,9 mörk að meðaltali í leik. Hún er skráð með 12 stoðsendingar.
Sandra skaust upp í 20. sæti listans eftir að hafa skorað sjö mörk í sigurleik TuS Metzingen á Bad Wildungen á laugardaginn. Sandra hefur skorað 34 mörk, þar af 16 úr vítaköstum. Einnig er skráðar 17 stoðsendingar á Söndru.
Andstæðingur er markahæst
Ema Hrvatin, landsliðskona Slóvena og samherji Díönu Daggar hjá BSV Sachsen Zwickau, er markahæst í þýsku 1. deildinni með 68 mörk, þar af 27 mörk úr vítköstum. Einnig hefur hún átt 16 stoðsendingar. Reikna má með að Hrvatin verði í landsliði Slóveníu sem mætir íslenska landsliðinu í fyrsta leik D-riðils heimsmeistaramótsins 29. nóvember í Stavangri.
Í öðru sæti er Toni-Luisa Reinemann leikmaður Oldenburg með 60 mörk og Annika Lott hjá Thüringer HC er í þriðja sæti með 55 mörk, ekkert þeirra úr vítakasti.