Forsvarsfólk Harðar á Ísafirði var ekki lengi að grípa í taumana eftir að tveir leikmenn yfirgáfu lið félagsins í vikunni. Snemma í morgun var greint frá því á Facebook síðu Harðar að tveir liðsmenn sem léku með Herði á síðasta og þar síðasta keppnistímabili hafi ákveðið að mæta til leiks á ný með Ísafjarðarliðinu.
Um er að ræða Brasilíumennina Guilherme Carmignoli De Andrade og Jose Esteves Lopes Neto. Báðir gengu þeir til liðs við Hörð ágúst 2022 en hrepptu ekki leikheimild hér á landi fyrr en eftir miðjan október, sama ár.
De Andrade er rétthent skytta sem getur einnig leikið á miðjunni og í vinstra horni samkvæmt upplýsingum sem birtar voru um hann á sínum tíma. Neto er á hinn bóginn örvhentur.
Neto skoraði 86 mörk í 17 leikjum Harðar í Grill 66-deildinni á síðasta tímabili en De Andrade 45 mörk í 18 leikjum. Báðir gerðu það einnig gott með Herði í Olísdeildinni 2022/2023.
Sjá einnig:
Brasilíumenn streyma til Harðar – tveir í dag og einn í fyrrakvöld
Grískur landsliðsmaður hættur hjá Herði
Serbnesk skytta hefur kvatt Hörð
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.