Landslið Íslands og Færeyja, skipað leikmönnum 17 ára og yngri í kvennaflokki, skildu jöfn í síðari vináttuleiknum sem fram fór í Vestmanna í Færeyjum í dag, 27:27. Íslenska liðið var með sex marka forskot eftir fyrri hálfleik, 15:9. Segja má að liðin hafi ráðið lögum og lofum hvort í sínum hálfleiknum.
Í gær vann íslenska liðið nauman sigur í fyrri viðureigninni, 28:27, með sigurmarki Rakelar Dórótheu Ágústsdóttur á síðustu sekúndu.
Íslenska liðið réði lögum og lofum í fyrri hálfleikÍ Vestmanna í dag. Strax eftir 10 mínútna leik var forskotið orðið fjögur mörk, 7:3. Hvað sem færeyska liðið reyndi þá féll því allur ketill í eld.
Annað var up á teningnum í síðari hálfleik. Þá óx færeyska liðinu ásamegin. Forskot íslenska liðsins var komið niður í þrjú mörk um miðjan hálfleikinn. Áður en yfirlauk var staðan jöfn en Færeyingar skoruðu mörg mörk eftir hraðaupphlaup í síðari hálfleik.
Næsta verkefni U17 ára landsliðs Íslands verður þátttaka í Evrópumótinu sem fram fer í Podgorica í Svartfjallalandi og hefst 3. ágúst. Færeyska landsliðið verður á svipuðum tíma þáttakandi í B-hluta Evrópumótsins sem haldið verður í Aserbaísjan.
Mörk Íslands: Dagmar Pálsdóttir 6, Ásthildur Þórhallsdóttir 5, Ágústa Jónasdóttir 3, Arna Eiríksdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Guðmunda Guðjónsdóttir 2, Eva Gísladóttir 1, Guðrún Traustadóttir 1, Bergrós Guðmundsdóttir 1, Alexandra Viktorsdóttir 1, Ásrún Arnarsdóttir 1.
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 11, Ingunn María Brynjarsdóttir 4.
Myndir frá leiknum er að finna á Facebook-síðu færeyska handknattleikssambandsins.