Piltarnir í U18 ára landsliði Íslands í handknattleik mættu ofjörlum sínum í dag er þeir léku við Króata í annarri umferð Pierre Tiby-mótsins, í París. Króatar tóku völdin strax í upphafi leiksins og unnu öruggan sigur, 33:21, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 18:10.
Sóknarleikurinn var íslenska liðinu erfiður í fyrri hálfleik. Eftir stundarfjórðungs leik hafði þeim aðeins tekist að skora fjögur mörk, 7:4.
Stórir og sterkir Króatar juku við forskot sitt til loka hálfleiksins. Greinilegur var mikill hæðar og þyngdarmunur á liðunum og voru nokkrir Króatarnir líkastir fullorðnum karlmönnum að burðum og hæð.
Áfram hallaði undan fæti í upphafi síðari hálfleiks. Íslenska liði prófaði að fara í sjö á sex í sókninni til þess að freista þess að fá Króata aftar á völlinn, en þeir léku afar góða, 5/1 eða 3/2/1 vörn. Allt kom fyrir ekki. Króatar skoruðu auðveld mörk í autt mark Íslands og bætti við forskot sitt sem komið var upp í 12 mörk áður en tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum, 23:11. Þar með mátti segja að allir vonir hafi verið úti.
Síðasti leikur íslensku strákanna á mótinu verður á morgun klukkan 17 gegn Ungverjum sem töpuðu fyrir Króötum með fjögurra marka mun í gær, 32:28, og leika í kvöld við Frakka.
Mörk Íslands: Elmar Erlingsson 4/1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 4, Atli Steinn Arnarsson 3, Sæþór Atlason 3, Kjartan Þór Júlíusson 2, Sudario Eidur Carneiro 2, Andrés Marel Sigurðsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 9/2.