- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U20: Erum staðráðnir í að ná sæti á HM

Einar Andri Einarsson, annar þjálfari 20 ára landsliðs karla. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Slóvenar eru með hrikalega öflugt lið. Af þeim sökum er í mörg horn að líta fyrir okkur við undirbúninginn fyrir viðureignina við þá á morgun,“ sagði Einar Andri Einarsson annar af þjálfurum U20 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is í dag um væntanlega mótherja íslenska landsliðsins í krosspili um níunda til tólfta sætið á Evrópumótinu í handknattleik í Porto.

Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson fagnar einu af fimm mörkum sínum gegn Króötum. Mynd/EHF


Íslenska liðið stendur frammi fyrir viðureign við Slóvena á morgun. Með sigri tryggir Ísland sér sæti á HM 21 árs landsliða á næsta ári og um leið þátttöku í leik um níunda til tíunda sæti Evrópumótsins á laugardaginn.


Slóvenar léku til úrslita á Evrópumóti 19 ára landsliða í fyrra. Lið þeirra er skipað nánast sömu leikmönnum og þá.

Lítum fyrst og fremst á okkur

„Samhliða því að skoða slóvenska liðið þá leggjum við megináherslu að skoða hvað við höfum gert vel og hvernig við getum haldið áfram á þeirri braut. Einbeita okkur að eigin leik og frammistöðu. Það hefur reynst vel þegar liðið hefur á mótið. Hraðaupphlaupin hafa batnað með hverjum leiknum sem liðið hefur á mótinu,“ sagði Einar Andri og bendir m.a. á að í leiknum við Svartfellinga í fyrradag þá skoraði íslenska liðið 24 mörk eftir hraðaupphlaup.

Adam Thorstensen hefur átt frábæra tvo leiki í röð í marki Íslands á EM. Mynd/EHF

Frábær vörn og markvarsla

„Varnarleikurinn hefur verið frábær og sömu sögu er að segja um markvörsluna. Það hefur verið stígandi í okkar leik. Við veðjum á að svo verði áfram,“ sagði Einar Andri sem lýkur lofsorði á strákana sem hafa þjappað sér saman þrátt fyrir afföll í leikmannahópnum en sem stendur er útlit fyrir að þrír leikmenn verði á sjúkralista á morgun eins og kom fram á handbolta.is í morgun.

Leikir og leiktímar á föstudaginn
9. – 12. sæti:
16.00 Slóvenía – Ísland.
18.30 Ítalía – Færeyjar.

Sigurliðin leika um 9. sæti á laugardaginn.
Tapliðin leika um 11. sæti á laugardaginn.

Leiktímar á laugardaginn, klukkan 15 og 17.30.

Ellefu efstu liðin á mótinu, að þýska liðinu meðtöldu, tryggja þjóðum sínum keppnisrétt á HM U21 árs landsliða sem fram fer í Grikklandi og Þýskaland frá 20. júní til 2. júlí á næsta ári.

Vilja ná nýju markmiði

„Við ætlum að selja okkur dýrt í leiknum við Slóvena og gera allt til þess að vinna og ná þar með að minnsta kosti að tryggja Íslandi sæti á HM21árs landsliða á næsta ári. Um leið og ljóst varð að markmið okkar um sæti í átta liða úrslitum var rokið út í veður og vind að lokinni riðlakeppninni á sunnudaginn funduðum við strax með strákunum og settum okkur nýtt markmið, að komast inn á HM. Strákarnir hafa brugðist frábærlega vel við. Þeir hafa verið einbeittir og eru staðráðnir í að ná sæti á HM.“

Eiga hrós skilið

„Leikurinn verður erfiður en ég er viss um að með áframhaldandi frammistöðu frá tveimur síðustu leikjum þá verða okkur allir vegir færir. Strákarnir eiga hrós skilið fyrir hvernig þeir svöruðu vonbrigðunum. Það er ekkert launungamál að við ætlum upp úr riðlinum og ná inn í átta lið úrslit. Það sýnir mikinn karakter hjá þeim að svara með þeim hætti sem þeir hafa gert í síðustu leikjum,“ sagði Einar Andri Einarsson, annar þjálfara U20 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í Porto í dag.


Viðureign Íslands og Slóveníu hefst klukkan 16 á morgun, föstudag, og verður í textalýsingu á handbolti.is eins og aðrir leikir íslenska landsliðsins á Evrópumóti 20 ára landsliða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -