- Auglýsing -
- Auglýsing -

U21: Erum í skýjunum með þessa tvo leiki

Talsverður hluti U20 ára landsliðsins á EM í sumar sem leið er í æfingahópi 21 árs landsliðsins. Mynd/Jónas Árnason
- Auglýsing -

„Ferðin var frábær og báðir leikirnir, ekki síst sá fyrri sem var stórkostlegur af okkar hálfu,“ sagði Einar Andri Einarsson annar af þjálfurum U21 árs landsliðs karla í samtali við handbolta.is i morgun. Einar Andri var staddur með sveit sína á Charles de Gaulle-flugvelli í París á heimleið eftir tvo vináttuleiki við franska landsliðið sem fram fóru á föstudaginn og í gær. Fyrri viðureignina vann íslenska liðið með níu marka mun, 33:24, en tapaði naumlega þeirri síðari í gærkvöld, 33:32.


Leikirnir eru liður í undirbúningi beggja landsliða fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Grikklandi og í Þýskalandi frá 20. júní til 2. júlí.

U21 árs landsliðið mætir Frökkum ytra í kvöld og á morgun

Frakkar eru með frábært lið

„Í fyrri viðureigninni gekk allt upp hjá okkur. Vörn og markvarsla var frábær og sóknarleikurinn einnig mjög góður. Í gær lékum við afar vel í fyrri hálfleik en gáfum aðeins eftir í síðari hálfleik. Yfirhöfuð erum við í skýjunum með þessa tvo leiki. Frakkar eru með frábært lið sem varð í sjötta sæti á EM 20 ára landsliða á síðasta sumri. Aðeins vantaði einn leikmann í hópinn hjá þeim að þessu sinni,“ sagði Einar Andri.

Fjóra öfluga leikmenn vantaði í íslenska hópinn, Guðmund Braga Ástþórsson, Jóhannes Berg Andrason, Tryggva Garðar Jónsson og Þorstein Leó Gunnarsson sem allir eru meiddir eða eru að jafna sig af meiðslum.

Þeir yngri nýttu tækifærið

„Hjá okkur voru margir að leika sína fyrstu landsleiki auk þess sem í hópnum voru leikmenn úr U19 ára landsliðinu sem stóðu sig afar vel. Þeir nýttu vel sín tækifæri og fengu kærkomna reynslu sem mun skila sér inn í þeirra landslið sem einnig stendur í stórræðum í sumar,“ sagði Einar Andri ennfremur.

Mikill áhugi á báðum leikjum

Gríðarlegur áhugi var fyrir báðum leikjum Frakka og Íslendinga sem fram fóru í Abbeville og Amiens. Einar Andri sagði að fullt hús hafi verið á leikjunum og góð stemning hafi orðið til þess að auka enn á reynslu og upplifun piltanna af leikjunum.


Næst kemur U21 árs landsliðið saman í lok maí eftir að Íslandsmótinu verður lokið. Einar Andri sagði að ákveðið hafi verið að nýta ekki tímann í lok apríl meðan frí er á Íslandsmótinu meðan A-landsliðið leikur.

„Við ákváðum að nýta tímann núna í mars og leyfa strákunum síðan að einbeita sér að félagsliðum sínum í lok apríl. Margir þeirra eru í stórum hlutverkum hjá sínum félagsliðum og okkur þykir skynsamlegast að leyfa þeim að hugsa um sín verkefni með liðunum og koma síðan ferskir inn til æfinga með landsliðinu í lok maí,” sagði Einar Andri Einarsson sem er þjálfari U21 árs landsliðs karla ásamt Róberti Gunnarssyni.

Tveir leikir við Færeyinga

Vonir standa til þess að U21 árs landsliðið leiki tvo vináttuleiki við færeyska landsliðið í byrjun júní. Færeyingar eiga frábært landslið í þessum aldursflokki sem einnig tekur þátt í HM í sumar. Reyndar hefur færeyska handknattleikssambandið þegar staðfest að leikirnir fari fram 10. og 11. júní á Íslandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -