Ungverjar komu íslenska landsliðinu til aðstoðar í kvöld með jafntefli við Svía, 32:32, í síðasta leik dagsins í milliriðli 2 á EM karla í handknattleik. Þar með er íslenska liðið í öðru sæti riðilsins með fimm stig og fer í undanúrslit á EM með sigri á Slóvenum, hvernig sem viðureign Svíþjóðar og Sviss fer annað kvöld.
Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 14.30 á morgun í Malmö Arena.
- Takist íslenska liðinu að vinna Slóvena á morgun þá nægir Svíum ekki sigur á Sviss vegna þess að Ísland og Svíþjóð enda þá jöfn að stigum, með sjö stig hvort.
- Vegna sigurs Íslands á Svíum á sunnudagskvöldið kemst Ísland í undanúrslit, endi liðin jöfn að stigum.
- Tapi íslenska liðið fyrir Slóvenum hefur liðið að öllum líkindum lokið keppni nema að Svíar tapi fyrir Sviss.
- Verði jafntefli í viðureign Íslands og Slóveníu mun jafnteflið ekki nægja íslenska landsliðinu til annars sæti í riðlinum nema að Svíar tapi eða geri jafntefli við Sviss.
- Takist íslenska landsliðinu að vinna Slóveníu og Króatía tapar fyrir Ungverjalandi nær íslenska efsta sæti riðilsins.
- Króatar geta setið eftir tapi þeir fyrir Ungverjum og Ísland og Svíþjóð vinna eða ef Ísland vinnur og Svíþjóð gera jafntefli.
Leikir morgundagsins í milliriðli 2:
Slóvenía – Ísland, kl. 14.30.
Króatía – Ungverjaland, kl. 17.
Sviss – Svíþjóð, kl. 19.30.
Dramatískar lokasekúndur
Leikur Svía og Ungverja var æsilega jafn og spennandi. Andreas Palicka markvörður Svía varði skot úr hægra horni þremur sekúndum fyrir leikslok og reyndi í kjölfarið að tryggja sænska liðinu sigur með því að kasta boltanum yfir völlinn. Hann hitti ekki markið og leiktíminn rann út.
Þar með var dramatíkin ekki á enda því dómararnir litu á skjáinn til að kanna hvort Ungverjar hefðu átt rétt á vítakasti nokkrum sekúndum fyrir leikslok þegar Palicka varði Szita, en sænskur varnarmaður virtist standa innan teigs. Eftir nokkra skoðun þá var það niðurstaða þýsku dómaranna að ekki hafi verið um vítakast að ræða. Verður að telja skoðun þeirra umdeilanlega.



