Svo mikill var áhuginn í Færeyjum þegar miðasala hófst í morgun á fyrsta heimaleik karlalandsliðsins í handknattleik í nýju þjóðarhöllinn í Þórshöfn, Við Tjarnir, að miðasölukerfi færeyska handknattleikssambandsins lagðist á hliðina. Það hafðist ekki undan að mæta spurninni eftir aðgöngumiðum sem voru bókstaflega rifnir út. Fréttamiðillinn Portal.fo segir frá.
Mörgum tókst að ná í miða í gegnum kerfi keppnishallarinnar. Aðeins nokkrum mínútum eftir að sala hófst klukkan 10 í morgun voru allir miðar seldir, jafnt miðar í sæti og í um 800 stæði þar sem áhorfendur verða að gera sér að góðu að standa upp á endan ofarlega í keppnishöllinni. Alls seldust 2.500 aðgöngumiðar.
Sjá einnig: Atgongumerkini til fyrsta landsdystin skrædd burtur
Ljóst er að færeyska landsliðið fær frábæran stuðning í fyrsta heimaleiknum í þjóðarhöllinni en hátt í 3.000 áhorfendur verða á viðureigninni gegn Hollendingum 12. mars í undankeppni Evrópumóts karla. Telja menn nú dagana fram að leik nánast eins og dagana til jóla. Búast má við ekta Ólafsvökustemningu eins og hún verður best meðal okkar kæru nágranna.
Ekki er nóg með að áhuginn er mikill fyrir heimaleiknum heldur hafa þegar 700 Færeyingar tryggt sér miða á leikinn við Hollendinga í Hollandi fjórum dögum eftir stóra leikinn Við Tjarnir.
Þjóðarhöllin, Við Tjarnir, verður vígð á morgun, aðeins 26 mánuðum eftir að fyrsta skóflustungan var tekin.