Handboltaáhugafólk í Þýskalandi sem hafði í hyggju að sjá upphafsleik Þýskalands og Íslands á HM í sjónvarpinu varð fyrir vonbrigðum á miðvikudagskvöldið þegar útsending frá leiknum var rofin eftir nærri tíu mínútna leik. Þess í stað sýndi Eurosport gamla útsendingu frá keppni í skíðastökki.
Kinnhestur fyrir kvennahandbolta
Andrúmsloftið í kringum HM kvenna í Þýskalandi og Hollandi hefur þegar verið þrungið spennu eftir að þýsku stöðvarnar ARD og ZDF tilkynntu að þau ætluðu ekki hefja útsendingar fyrr en í átta liða úrslitum. Þetta varð til þess að Andreas Michelmann, forseti þýska handknattleikssambandsins (DHB), kallaði ástandið „hneyksli“ og „kinnhest fyrir þýskan kvennahandbolta“ fyrr í vikunni.
Á miðvikudaginn varð næsta áfall.
Eurosport hafði tilkynnt að stöðin myndi sýna leiki Þýskalands í heild sinni með smá seinkun. En eftir átta mínútna útsendingu á viðureign Þýskalands og Íslands fór myndin á skjánum að frjósa, rödd lýsandans hvarf og þegar staðan var 5:4 rofnaði útsendingin. Þráðurinn var ekki tekinn upp að nýju heldur brugðið á það ráð að senda út endurtekið efni frá skíðastökkskeppni.
Fljótlega eftir að leiknum var lokið gaf Eurosport stutta yfirlýsingu þar sem kom fram að tæknilegir erfiðleikar hefðu orðið til þess að ekki var hægt að halda útsendingu áfram af leiknum.



