Ekki tókst ÍBV að leggja stein í götu Íslands- og bikarmeistara Vals í viðureign liðanna í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum. Valsmenn fögnuðu sínum 11. sigri í 12 leikjum, 38:33, þrátt fyrir að Magnús Óli Magnússon, Róbert Aron Hostert og Tjörvi Týr Gíslason hafi verið fjarri góðu gamni. Reyndar vantaði Kára Kristján Kristjánsson og Theodór Sigurbjörnsson í lið ÍBV. Sá síðarnefndi hefur ekki verið mikið með til þessa.
Valur byrjaði leikinn af krafti á sama tíma og sóknarleikur ÍBV var ekki sem skildi. Þegar á leið jafnaðist leikurinn aðeins og gestirnir voru tveimur yfir, 19:17, þegar gengið var til skrafs og ráðagerða eftir 30 mínútna leik.
ÍBV tókst að minnka muninn í eitt mark, 21:22. Bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær skoruðu þá tvö mörk á átta sekúndum og komu Val þremur mörkum yfir. Eftir það var forystan í höndum Íslandsmeistaranna sem fara til Ungverjalands á morgun til leiks við Ferceváros á þriðjudaginn.
Mörk ÍBV: Dánjal Ragnarsson 7/1, Gabríel Martinez Róbertsson 6, Sveinn Jose Rivera 4, Arnór Viðarsson 4, Rúnar Kárason 4, Elmar Erlingsson 2, Nökkvi Snær Óðinsson 2, Róbert Sigurðarson 2, Dagur Arnarsson 1, Janus Dam Djurhuus.
Varin skot: Petar Jokanovic 6/1, 18,8% – Jóhannes Esra Ingólfsson, 1, 8,3%.
Mörk Vals: Bergur Elí Rúnarsson 8, Arnór Snær Óskarsson 6, Benedikt Gunnar Óskarsson 5, Aron Dagur Pálsson 5, Vignir Stefánsson 4, Þorgils Jón Svölu Baldursson 4, Tryggvi Garðar Jónsson 3, Agnar Smári Jónsson 1, Andri Finnsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11/1, 30,6% – Sakai Motoki 0.
Staðan í Olísdeild karla: (uppfært eftir leik Harðar og Hauka).
Valur | 12 | 11 | 0 | 1 | 415 – 432 | 22 |
FH | 11 | 7 | 2 | 2 | 329 – 318 | 16 |
Afturelding | 11 | 6 | 2 | 3 | 334 – 313 | 14 |
ÍBV | 12 | 6 | 2 | 4 | 401 – 372 | 14 |
Stjarnan | 11 | 5 | 3 | 3 | 327 – 314 | 13 |
Fram | 12 | 5 | 3 | 4 | 357 – 354 | 13 |
Haukar | 12 | 5 | 1 | 6 | 363 – 347 | 11 |
Selfoss | 11 | 5 | 1 | 5 | 321 – 229 | 11 |
Grótta | 10 | 3 | 2 | 5 | 269 – 269 | 8 |
KA | 11 | 3 | 2 | 6 | 313 – 331 | 8 |
ÍR | 11 | 2 | 1 | 8 | 307 – 372 | 5 |
Hörður | 12 | 0 | 1 | 11 | 354 – 429 | 1 |