Orri Freyr Þorkelsson var bæði stoltur og svekktur þegar handbolti.is ræddi við hann eftir 31:28 tap Íslands fyrir Danmörku í undanúrslitum Evrópumótsins í Herning í Danmörku í kvöld.
„Þeir ná einhverju áhlaupi um miðjan eða undir lok seinni hálfleiks. Þar ná þeir forskoti sem var bara of stórt fyrir okkur til þess að ná að koma til baka. Svona er þetta bara í þessu. Þegar tvö sterk lið mætast þá eru leikirnir jafnir og svo endar þetta yfirleitt á því að annað liðið vinnur,“ sagði Orri.
Ísland stóð vel í Danmörku en laut í lægra haldi
Telur allt svo mikið
Erfitt er að koma til baka þegar Danir ná nokkurra marka forskoti með tæplega 15.000 heimamenn fylkjandi sér á bak við liðið.
„Það má ekki missa þá fram úr sér. Það telur allt svo ógeðslega mikið. Hvert skot, hvert klipp. Þeir skora og við skorum ekki. Þetta kostar alltaf því þeir eru svo þéttir í heildina. Þeir refsa mikið. Þeir eru góðir að skora. Þeir spila langar sóknir, eru alltaf að leita og finna einhvern veginn opnanir.
Það er dýrt en samt sem áður er ég ógeðslega stoltur af því að vera hluti af þessu liði. Skrefin sem við erum búnir að taka, við erum komnir á þennan stað. Við erum að spila leik í fullu boxi hérna í Danmörku og við hefðum alveg getað unnið í dag en því miður fór þetta ekki þannig,“ sagði hann.
Mjög þakklátir fyrir stuðninginn
Af tæplega 15.000 áhorfendum í Jyske Bank Boxen í kvöld var stærstur hluti Danir og aðeins um 150 Íslendingar.
„Við finnum alltaf fyrir okkar stuðningi, sama hvort það séu 100 eða 5.000 Íslendingar í stúkunni. Við vitum hvernig þetta er heima, að fólkið er að styðja okkur. Það er ótrúlega mikilvægt.
Ef við förum út í það, þetta miðadæmi, allt í lagi en fyrir okkur snýst þetta bara um að spila handbolta. Við erum mjög þakklátir fyrir þann stuðning sem við erum búnir að fá yfir allt mótið,“ sagði Orri.
Komið að okkur að vinna þá
Ísland mætir Króatíu í leik um bronsverðlaunin á Evrópumótinu á sunnudag.
„Við erum búnir að spila við þá einu sinni áður á mótinu og þeir unnu okkur þá með einu. Nú er komið að okkur að vinna þá. Að sjálfsögðu verður það erfiður leikur.
En við mætum í hann og munum gera allt til að vinna þann leik til þess að sækja medalíu á þessu móti. Það væri draumur og við munum gefa allt í það,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson að endingu í samtali við handbolta.is


