Mathias Gidsel, hægri skytta heims- og ólympíumeistara Danmerkur, fer ekki í grafgötur með það að Danir séu sigurstranglegastir á komandi Evrópumóti sem fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og hefst síðar í vikunni.
Gidsel leikur með Þýskalandsmeisturum Füchse Berlín og er á meðal bestu leikmanna heims.
Þrátt fyrir að Danmörk hafi unnið fjögur heimsmeistaramót í röð og sé af flestum talin sterkasta þjóð heims í íþróttinni urðu Danir síðast Evrópumeistarar árið 2012.
Lang sigurstranglegastir
„Það væri heimskulegt að standa hérna og halda öðru fram en að við séum lang sigurstranglegastir. Við vitum að við erum á heimavelli, við erum með stórkostlegt lið og erum að spila stórfenglegan handbolta.
En við vitum líka að allir vilja vinna okkur. Við vitum hversu erfitt Evrópumótið er. Við erum í mjög erfiðum riðli og vonandi skilur fólk sem veit eitthvað um handbolta hversu erfiður sá riðill verður. Svigrúm til að gera mistök er mjög takmarkað.
Við verðum að leggja okkur 100 prósent fram. Við vitum að við munum fá stuðninginn. Í íþróttum eru það ekki alltaf sigurstranglegustu aðilarnir sem standa uppi sem sigurvegarar en við munum reyna okkar besta,“ sagði Gidsel í samtali við Handball Planet eftir stórsigur Danmerkur á Noregi í æfingaleik síðastliðið fimmtudagskvöld.



