Valur hafði sætaskipti við bikarmeistara Fram í öðru sæti Olísdeildar karla í kvöld eftir fimm marka sigur í viðureign liðanna í N1-höllinni á Hlíðarenda, 37:32. Valur var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 19:15.
Þegar þrjár umferðir eru eftir í Olísdeildinni er Valur stigi á eftir FH sem trónir á toppnum með 29 stig. Afturelding og Fram hafa 27 stig hvort og ljóst að augu handboltaáhugafólks verður á leikjum toppliðanna fjögurra á næstunni. Áfram verður leikið í Olísdeild karla á laugardag og sunnudag.
Valsmenn voru mikið beittari frá upphafi til enda á Hlíðarenda í kvöld. Varnarleikurinn var afar góður og Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í markinu, ætlaði greinilega að sýna sínar bestu hliðar eftir valið á landsliðinu vikunni hvar hann var ekki valinn.
Framarar voru nokkuð frá sínu besta að þessu sinni. Þeir lentu níu mörkum undir en tókst aðeins að lagfæra stöðuna í síðari hluta síðari hálfleiks.
Þessi leikur var staðfesting á að Valsliðið virðist til alls líklegt á endaspretti Olísdeildarinnar.
Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.
Mörk Vals: Úlfar Páll Monsi Þórðarson 7/4, Ísak Gústafsson 6, Allan Norðberg 3, Agnar Smári Jónsson 3, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Þorgils Jón Svölu Baldursson 3, Bjarni í Selvindi 2, Viktor Sigurðsson 2, Róbert Aron Hostert 2, Alexander Peterson 1, Magnús Óli Magnússon 1, Daníel Örn Guðmundsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 19, 37,3%.
Mörk Fram: Ívar Logi Styrmisson 10/2, Reynir Þór Stefánsson 8. Rúnar Kárason 3, Max Emil Stenlund 2, Dagur Fannar Möller 2, Erlendur Guðmundsson 2, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 2, Ólafur Jóhann Magnússon 1, Marel Baldvinsson 1, Eiður Rafn Valsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 5, 19,2% – Arnór Máni Daðason 2, 11,8%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.