Valur er kominn yfir í einvíginu við Aftureldingu í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik eftir eins marks sigur, 30:29, í háspennuleik í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Valur hefur tvo vinninga en Afturelding einn. Næsti leikur verður að Varmá á mánudagskvöld og verður Afturelding að vinna til þess að knýja fram oddaleik.
Kristófer Máni Jónasson skoraði sigurmarkið 25 sekúndum fyrir leikslok.
Afturelding var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12. Miklu munaði fyrir Aftureldingu að missa Birgi Stein Jónsson af leikvelli með rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks.
Aftureldingarliðið var yfir allan fyrri hálfleikinn. Val tókst að jafna nokkrum sinnum framan af en komst ekki yfir nema einu sinni, 4:3.
Einar Baldvin Baldvinsson markvörður Aftureldingar var frábær í markinu. Hann varði 13 skot, 52%. Mörk skotanna varði hann úr opnum færum.
Hátt spennustig
Spennustigið var hátt í leiknum, ekki síst meðal Valsmanna sem kom niður á nýtingu opinni færa þar sem Einar Baldvin lék þá grátt í marki Aftureldingar. M.a. skoraði Valur ekki mark í nærri níu mínútur undir lok hálfleiksins. Má segja að leikmenn liðsins hafi verið sjálfum sér verstir.
Björgvin Páll Gústavsson varði vel. Alls sjö skot, 31%, hann verður ekki sakaður um að Valsliðið var undir allan hálfleikinn, eða svo gott sem.
Rautt spjald
Þegar 37 sekúndur voru eftir að leiktíma fyrri hálfleiks braut Birgir Steinn Jónsson klaufalega á Róberti Aroni í hröðu upphlaupi. Eftir að dómarar leiksins höfðu skoðað atvikið sýndu þeir Birgir Steini, sem var markahæstur Mosfellinga í fyrri hálfleik, rauða spjaldið.
Staðan í hálfleik var 16:12 Aftureldingu í vil. Verðskulduð forysta.
Valsmenn hertu upp hugann
Valsmenn komu betur stefndir til síðari hálfleiks og tóku til við að saxa á forskot Aftureldingar sem saknað Birgis auk þess sem markvarslan var ekki sú sama og í fyrri hálfleik. Valsliðinu tókst að jafna, 21:21 eftir 13 mínútur þegar liðið skoraði þriðja mark sitt í röð. Bjarni í Selvindi skoraði eftir hraðaupphlaup. Nokkru áður gat Afturelding aukið muninn í fjögur mörk.
Hamur rann á Bjarna
Upp úr þessu rann hamur á Færeyinginn sem var vel studdur af hópi landa sinni sem voru á leiknum og létu vel í sér heyra. Má segja að Bjarni hafi haldið uppi sóknarleik Vals nær því til leiksloka.
Leikurinn var stál í stál allt til leiksloka. Valur náði tveggja marka forskoti, 29:27, en Mosfellingar jöfnuðu metin.
Kristófer Máni Jónasson skoraði sigurmark Vals 25 sekúndum fyrir leikslok. Afturelding átti síðustu sóknina en tókst ekki að færa sér hana í nyt.
Mörk Vals: Úlfar Páll Monsi Þórðarson 11/4, Bjarni Selvindi 6, Magnús Óli Magnússon 3, Allan Norðberg 3, Kristófer Máni Jónasson 2, Viktor Sigurðsson 2, Agnar Smári Jónsson 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16, 35,6%.
Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 10/3, Birgir Steinn Jónsson 5, Hallur Arason 4, Ihor Kopyshynskyi 3, Stefán Magni Hjartarson 3,Kristján Ottó Hjálmsson 2, Harri Halldórsson 1, Árni Bragi Eyjólfsson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 15/1, 37,5% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 0.
Handbolti.is var í N1-höllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu.