Valur tryggði sér sæti í Evrópudeildinni í handknattleik karla í kvöld eftir að hafa stigið krappan dans við RK Bjelin Spacva Vinkovci í síðari viðureign liðanna í forkeppninni á fjölum íþróttahallarinnar í Vinkovci í Króatíu. Valsmenn töpuðu með átta marka mun, 32:24, og sluppu fyrir horn vegna þess að þeir unnu með níu mörkum á heimavelli fyrir viku, 34:25.
RK Bjelin Spacva Vinkovci var níu mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 19:10, og var eflaust farið að fara um leikmenn og þjálfara Vals. Þeir lögðu ekki árar í bát og tókst að minnka muninn í sex mörk, 26:20, áður en heimamenn bitu í skjaldarrendur á nýjan leik.
Lokakafli leiksins var æsilega spennandi og krappur dans stiginn. Leikmönnum Vals tókst að standast álagið og vinna samanlagt með eins marks mun, 58:57.
Mörk Vals: Bjarni í Selvindi 7, Ísak Gústafsson 4, Andri Finnsson 4, Viktor Sigurðsson 2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 2, Miodrag Corsovic 2, Allan Norðberg 2, Björgvin Páll Gústavsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 8, 22% – Jens Sigurðarson 1, 25%.
Valur fer í F-riðil Evrópudeildar. Eins og leikjadagskráin er verður fyrsti leikur Vals í Skopje 8. okótber gegn Vardar:
8. október: HC Vardar – Valur.
15. október: Valur – Porto.
22. október: Melsungen – Valur.
29. október: Valur – Melsungen.
19. nóvember: Valur – HC Vardar.
26. nóvember: FC Porto – Valur.
Sjá einnig: