Valur leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna fimmta árið í röð (2020 ekki með talið en þá féll úrslitakeppnin niður) eftir að hafa lagt Stjörnuna að velli í fjórða leik liðanna í TM-höllinni í dag, 27:20. Valur vann þar með þrjá leiki í rimmunni en Stjarnan einn, þann fyrsta sem fram fór í Origohöllinni.
Valur mætir annað hvort ÍBV eða Haukum í úrslitum en liðin mætast í oddaleik á þriðjudaginn í Vestmannaeyjum.
Eftir þrjá hörkuleiki fram að leiknum í dag var Valsliðið öflugra að þessu sinni. Forskot liðsins var þrjú mörk eftir fyrri hálfleik, 12:9. Vörn og markvarsla var til fyrirmyndar.
Stjarnan gerði hvað hún gat til þess að jafna metin í síðari hálfleik. Litlu munaði að það tækist. Eftir að hafa breytt yfir í sjö á sex þá minnkaði Stjarnan muninn í eitt mark, 15:16, þegar 12 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Vopnin snerust hinsvegar skyndilega í höndum Stjörnunnar. Hún fékk á sig tvö mörk í autt markið með skömmu millibili. Forskot Vals fór í þrjú mörk, 15:18. Valur skoraði sex mörk gegn einu á sjö mínútna kafla svo tíu mínútum fyrir leiksloka var munurinn, 22:16, Val í vil.
Eftir það var ljóst hvorum meginn sigurinn félli. Valur var kominn áfram í úrslit en Stjarnan er fallin úr leik.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 8, Lena Margrét Valdimarsdóttir 6/2, Britney Cits 3, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Eva Björk Davíðsdóttir 2.
Varin skot: Darija Zecevic10, 31,3%.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 10/5, Thea Imani Sturludóttir 4, Mariam Eradze 3, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Karlotta Óskarsdóttir 1, Sara Dögg Hjaltadóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 13, 39,4%.