Hafdís Renötudóttir, landsliðsmarkvörður, hefur gengið til liðs við Val frá Fram en Valur staðfesti komu hennar með tilkynningu í hádeginu og að tveggja ára samningur taki gildi milli Vals og Hafdísar.
Handbolti.is sagði frá væntanlegri komu Hafdísar í herbúðir Vals fyrir um mánuði.
Hafdís, sem er 26 ára gömul, hefur um árabil verið ein af allra bestu markvörðum Olísdeildarinnar og átt fast sæti í landsliðinu. Hún hefur verið kjölfesta í Framliðinu síðan hún kom til baka eftir þriggja ára fjarveru 2019. Hafdís lék með SønderjyskE í Danmörku og Sola HK í Noregi frá 2017 til 2019. Einnig var hún með Stjörnunni frá 2016 til 2017. Eins var Hafdís í skamman tíma hjá Lugi í Noregi síðla árs 2020.
Hafdís á að baki 44 landsleiki og hefur skorað í þeim tvö mörk.
Hafdís kemur til með að mynda sterkt markvarðateymi með Söru Sif Helgadóttur á næstu leiktíð.
Í fyrradag var tilkynnt að Lovísa Thompson snúi aftur til Vals eftir árs fjarveru. Þar að auki hafa m.a. Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Thea Imani Sturludóttir skrifað undir framlengingu á samningum við Val á allra síðustu dögum. Ljóst er að Íslandsmeistaralið Vals, undir stjórn Ágústs Þórs Jóhannssonar, verður ill viðráðanlegt á næsta keppnistímabili.