Fábio Magalhães, leikmaður portúgalska landsliðsins og stórliðsins FC Porto, segir að leikmenn portúgalska landsliðsins muni alls ekki vanmeta íslenska landsliðið þótt það verði án Arons Pálmarssonar.
Magalhães verður í eldlínunni með samherjum sínum gegn íslenska landsliðinu í undankeppni EM á heimavelli Porto á miðvikudagskvöld.
„Íslendingar eiga marga frábæra handknattleiksmenn sem við verðum að hafa góðar gætur á og taka mjög alvarlega. Íslenska landsliðið hefur lengi verið í fremstu röð og tekur nánast þátt í öllum stórmótum,“ segir á heimasíðu Handknattleikssambands Portúgals í tilefni af leiknum á miðvikudaginn sem er sá fyrsti af þremur sem þjóðirnar munu mætast í á næstu átta daga tímabili.
„Við búum okkur undir að mæta mjög góðum andstæðingi sem leikur skemmtilegan og skipulagðan handknattleik. Sjálfur ber ég mikla virðingu fyrir íslenskum handknattleik og handknattleiksmönnum.
Sannarlega er það markmið okkar að vinna leikinn og treysta þar með stöðu okkar á toppi riðilsins í undankeppni EM. Lykillinn að sigri er góður varnarleikur og hraðauppahlaup,“ sagði Magalhães sem tók þátt í viðureign Íslands og Portúgals á EM í Svíþjóð fyrir ári.
„Slæmur upphafskafli í þeim leik varð okkur að falli. Reynt íslenskt lið nýtti sér það og hélt fast um stjórnvölinn í leiknum allt til loka,“ sagði Fábio Magalhães.
Fyrir leikinn á EM fyrir ári sem Ísland vann 28:25, þá mættust landslið Íslands og Portúgal þar á undan í tvígang í undankeppni HM 12. og 16. júni 2016. Ísland vann fyrri leikinn í Laugardalshöll, 26:23, en tapaði þeim síðari sem fram fór í Porto, 21:20. Íslenska landsliðið fór þar með á HM í Frakklandi 2017 en Portúgalir sátu eftir með sárt ennið.