- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Var hræðilegt hjá okkur frá upphafi til enda“

Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs á hliðarlínunni í einum leikja Þórs á keppnistímabilinu. Mynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net
- Auglýsing -

„Þetta var hræðilegt hjá okkur, frá upphafi til enda,“ sagði Halldór Örn Tryggvason þjálfari karlaliðs Þórs í handknattleik eftir skell, 33:24, í leik við ÍR í Grill 66-deild karla í sjöttu umferð Grill 66-deildar karla í handknattleik í gær. Þórsliðið hefði tyllt sér á topp deildarinnar með sigri. Sú varð ekki raunin og þar með situr liðið í öðru til þriðja sæti ásamt Fjölni með níu stig. Ungmennalið Fram er efst með 10 stig og ÍR er í fjórða sæti með átta stig.

Gáfum eftir á öllum sviðum

„Við sýndum engan karakter sem lið að þessu sinni. Það bar ekkert á þeim gildum sem við viljum standa fyrir. Við bökkuðum út úr öllu og gáfum eftir á öllum sviðum leiksins. Sama hvar var litið, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Halldór Örn sem sagðist ekki trúa því að sá munur sem var á liðunum í leiknum endurspegli hinn raunverulega mun.

Ekki Þórsurum sæmandi

„Ég trúi því að á betri degi þá getum við sýnt mikið betri leik en þetta. Þessi frammistaða er Þórsurum ekki sæmandi á neinn hátt.“

Halldór Örn sagði að ekkert í leiknum hafi átt að koma sér eða leikmönnum í opna skjöldu. ÍR-liðið væri gott en hann trúi því að Þórsliðið eigi að geta staðið ÍR-ingum á sporði. Þá verður frammistaðan að vera mikið betri.

Slæm færanýting

„Færanýtingin okkar var til dæmis skelfileg að þessu sinni, 12 eða 13 opin færi fara forgörðum. Okkur tókst ekki að klukkan leikmenn ÍR í vörninni eða þá að hlaupa með þeim til baka í vörninni. Við vorum hægir og staðir. Bara lélegir.“

Halldór Örn gaf sér góðan tíma til þess að fara yfir málin með sínum leikmönnum í klefanum eftir leikinn áður en haldið var af stað norður. Spurður hvað hann hafi sagt við menn sagði Halldór það hafa verið einfalt.

„Ég bara spurði menn hvort þessi frammistaða væri það sem við vildum standa fyrir eða hvort það væri leikurinn sem við sýndum í síðustu umferð. Ég bað menn um að leita inn á við. Þá er ég ekki undanskilin. Ég spilaði á öllum leikmannahópnum í dag,“ sagði Halldór Örn.

Engar vísbendingar

Halldór Örn sagðist hreinlega ekki skilja hvað hafi komið fyrir. Ekkert í aðdraganda leiksins hafi gefið til kynna að frammistaðan yrði með þessum hætti.

„Við höfum unnið mjög vel síðustu vikur og átt fína leiki og góðar æfingar. Þetta var til dæmis bara gjörólíkt lið og ég sá á æfingu í gær. Ég er bara mjög vonsvikinn.“

Sáttur fram að þessum leik

Þórsarar byggja upp lið sitt á uppöldum heimamönnum, flestum ungum að árum, og þar með í svipuðum sporum og ÍR-ingar.

„Við erum með nokkra eldri með og höldum góðri blöndu í okkar hóp. Fram að þessum leik er ég sáttur við frammistöðuna. Ég tel mig vera með lið sem getur unnið deildina. Við sýndum það til dæmis í leiknum á undan þessum. Þá lékum við mjög vel gegn Herði.“

Mikilvægir leikir

„Ég vænti þess að það verði auðvelt að rífa menn upp í næsta leik eftir það sem gekk á hér í dag. Næst eigum við leik við Selfoss í bikarnum og síðan tökum við á móti Fjölni heima í deildinni eftir rúma viku. Framundan er mikilvæg vika hjá okkur og ljóst að ég vil ekki sjá svipaða frammistöðu frá mínum mönnum það sem eftir er vetrar,“ sagði Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs þungur á brún í samtali við handbolta.is í Skógarseli í gær.

Nánar var fjallað um leikina sem fram fóru í Grill 66-deild karla í gær hér fyrir neðan.

Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.

Getum orðið mikið betri en við erum

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -