„Ég er bara í smá spennufalli eftir þetta. Ég átti alls ekki von á því að við næðum svona frábærum leik,“ sagði Thea Imani Sturludóttir eftir að Valur vann MSK IUVENTA Michalovce í síðari viðureign liðanna í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld með 10 marka mun, 30:20, og samanlagt, 53:45, í tveimur viðureignum. Valur er þar með kominn í úrslit Evrópubikarkeppninnar sem fram fer í maí.
„Ég beið í allan dag eftir leiknum og var búinn að fara margoft í gegnum upplýsingar okkar fyrir leikinn. Við vissum vel hvað við þyrftum að gera til þess að vinna þetta. Þegar á hólminn var komið tókst okkur að sína allra bestu hliðar okkar,“ sagði Thea sem var næst markahæst hjá Val með sjö mörk.
Spurð um tilfinninguna að framundan er úrslitaleikir í Evrópubikarkeppninni. „Vá, þetta var svo fjarlægur draumur fyrir nokkrum árum. Þetta er bara svo frábært lið. Ég elska þessar stelpur og er svo ánægð með að okkur tókst að stilla okkur svona vel saman þegar mestu máli skipti. Þetta var bara ógeðslega gaman,“ sagði Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals í samtali við handbolta.is í kvöld.
Lengra viðtal við Theu Imani er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Andstæðingur Valsliðsins í úrslitaleikjunum verður spænska liðið Conservas Orbe Zendal Bm Porrino. Conservas Orbe Zendal Bm er með bækistöðvar í bænum Porrinu skammt frá Vigo í suðvestur-Galisíu, rétt norður af landamærum Spánar og Portúgal.
Úrslitaleikirnir verða 10. eða 11. maí og 17. eða 18. maí. Dregið verður á þriðjudaginn hvort liðið byrjar á heimavelli.
Líður ógeðslega vel – þetta var rosalega gaman