Tvö covid smit eru að finna á meðal þeirra 20 leikmanna sem eru í íslenska EM-hópnum í handknattleik karla. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfestir að svo sé í samtali við Vísir.is.
Tíðindin koma ekki í opna skjöldu þótt þau séu e.t.v. nýr veruleiki þegar kemur að landsliðshópnum sem hefur sloppið vel fram til þessa. Hvorki komu upp smit í aðdraganda HM í ársbyrjun, á mótinu sjálfu eða í kringum leikina þrjá sem fram fóru í vor í undankeppni EM þótt víða hafi verið farið yfir.
Smit kórónuveirunnar hafa sett stórt strik í reikinginn í dönsku úrvalsdeildinni þar sem aðeins var hægt að leika tvo af fjórtán leikjum sem til stóðu á háðir væru í kringum jólin. Meðal annars voru felldir niður leikir hjá félagsliðum sem íslenskir handknattleiksmenn leika með.
Veiran er á sveimi um alla Evrópu og einnig hér á landi þar sem nokkrir landsliðsmenn eru þegar komnir heim í jólaleyfi. Enn eitt metið í fjölda smita greindist hér á landi í gær, hart nær 900.
Til stendur að fyrsta æfing landsliðsins fyrir EM verði á öðrum degi nýs árs. Vináttuleikir við Litáa standa fyrir dyrum 7. og 9. janúar. Flogið verður til Ungverjalands 11. janúar þar sem fyrsti leikur Íslands á EM hefst þremur dögum síðar.