Víst er orðið að handknattleikslandslið Rússlands og Belarus komast ekki með nokkru móti inn í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna, IOC, sem fram fara á næsta ári. Thomas Bach, forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar, segir að boð um þátttöku hafi verið send út til 203 af 206 aðildarríkjum Ólympíuhreyfingarinnar. Rússland, Belarus auk Gvatemala eru ríkin þrjú sem ekki er boðin þátttaka.
Landslið og félagslið frá Rússlandi og Belarus hafa verið í banni frá keppni á vegum Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, og Handknattleikssambands Evrópu, EHF, eftir innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar 2022. Ekki virðast vera nokkrar líkur á að slakað verði á banninu þótt einhver alþjóðasamtök í íþróttum hafi slakað á klónni.
EHF ítrekaði í vor að ekki kæmi til greina að endurskoða afstöðuna til ríkjanna tveggja meðan ástandið væri óbreytt í Úkraínu. Hinsvegar hefði það hugsanlega getað sett IHF og EHF í vanda hefði IOC boðið ríkjunum tveimur þátttöku á leikunum þar sem keppni í handknattleik á Ólympíuleikum heyrir ekki beint undir hatt Alþjóða handknattleikssambandsins.
IOC getur þó ennþá endurskoðað afstöðu sína til þess að íþróttamenn Rússlands og Belarus megi keppa undir hlutlausum fána.
Ár er þangað til Ólympíuleikarnir hefjast í París. Fyrri hluti handknattleikskeppni Ólympíuleikanna fer fram í París en síðari hlutinn verður leikinn í Lille.