„Tapið svíður, ekki síst vegna þess að mér fannst við vera með þá í lás, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Ýmir Örn Gíslason leikmaður landsliðsins í samtali við handbolta.is daginn eftir tapið fyrir Þýskalandi á Evrópumótinu í handknattleik og daginn fyrir viðureignina við Frakka.
„Þegar maður lítur á stöðutöfluna þá verður maður ennþá svekktari því úrslit annarri leikja féllu frekar með okkur. Ef við hefðum bara náð í tvö stig þá værum við bara í mjög fínum málum og þannig lagað núllað út riðililinn,“ sagði Ýmir og bætti við að ýmsu mætti eflaust um kenna, hvort heldur leikmönnum eða dómurum. „Það skiptir engu máli héðan af. Leikurinn er að baki.“
Til þess að ná markmiði um sæti í forkeppni Ólympíuleika þarf íslenska liðið að vinna sér inn stig í næstu leikjum. „Við mætum dýrvitlausir í leikinn við Frakka. Við þurfum sex stig úr þremur síðustu leikjunum. Hvernig sem við förum að því. Mér nánast sama, bara svo framarlega sem við náum í stigin sex. Þá getur maður gengið sáttari frá borði,“ sagði Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Viðureign Íslands og Frakklands í annarri umferð milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik hefst klukkan 14.30 í dag. Handbolti.is verður með textalýsingu úr keppnishöllinni.