- Auglýsing -

Verðum að vera á tánum frá byrjun

- Auglýsing -


„Pólska liðið er afar sterkt og þess vegna frekar óvænt að það hafnaði í hópi liðanna í neðri hluta keppninnar en það var óheppið að dragast í mjög sterkan riðil með Ungverjum og Tékkum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í dag. Hann var þá í óða önn að búa íslenska liðið undir fyrri leikinn í milliriðlakeppni EM við pólska landsliðið sem fram fer á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 10.


„Við verðum að vera á tánum frá byrjun og ná toppleik til þess að veita pólska liðinu keppni. Við mætum vel undir leikinn búinn og eru staðráðin í að sýna alvöru frammistöðu,“ sagði Ágúst Þór sem hefur farið ítarlega yfir pólska landsliðið ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni samstarfsmanni sínum og Jóhanni Inga Guðmundssyni markvarðaþjálfara.

„Stelpurnar eru vel tilbúnar í verkefnið sem bíður okkar og eru staðráðnar í að ná í fín úrslit,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Leikmenn íslenska landsliðsins funduðu með þjálfurum í morgun og aftur í kvöld þar sem lagt var á ráðin fyrir viðureignina sem hefst á hádegi að staðartíma í Podgorica í Svartfjallalandi.

Snýst mikið um varnarleikinn

Til þess að geta staðið pólska landsliðinu á sporði verður nauðsynlegt fyrir íslenska liðið að leika betri vörn en í fyrri viðureignum sínum á mótinu.

Hittu fjölskyldur sínar

Auk þess að safna kröftum þá fengu stúlkurnar stund til þess að hitta fjölskyldur sína í dag en margar hverjar eiga foreldra og forráðamenn ytra sem sett hafa góðan svip á leiki íslenska landsliðsins með hvatningarhrópum.

Næst á þriðjudaginn

Á þriðjudaginn leikur íslenska landsliðið við landslið Norður Makedóníu. Að leikjunum tveimur loknum á þriðjudaginn skýrist hvað tekur síðan við hjá íslenska liðinu sem er í hópi þeirra liða sem leika um sæti 13 til 24.

Handbolti.is fylgist með viðureign Íslands og Póllands á morgun í textalýsingu. Einnig verður leikurinn sendur á ehftv.com.


Yngri landslið – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -