- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að vera kokkí í svona leikjum

Þórey Rósa Stefánsdóttir er klár í slaginn við Svía á Ásvöllum í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ef okkur tekst að töfra fram okkar besta leik þá eigum við möguleika á að standa í sænska landsliðinu,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í handknattleik um væntanlega viðureign Íslands og Svíþjóðar í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld og hefst klukkan 19.45. Enginn aðgangseyrir er að leiknum í boði Icelandair.

Viljum fylla Ásvelli

„Það verður bara fjör á leiknum. Við viljum sjá sem flesta áhorfendur. Allir þeir sem ekki fengu miða á karlaleikinn á laugardaginn eiga að mæta á leikinn okkar og láta í sér heyra. Við hljótum að geta fyllt Ásvelli með ókeypis aðgangi í boði Icelandair og þannig sett enn meiri pressu á uppbyggingu þjóðarhallar,“ sagði Þórey Rósa ennfremur en hún er leikjahæsti leikmaður landsliðsins um þessar mundir með 111 leiki.

Við ramman reip að draga

„Það er gaman að fá Svíana hingað heim. Sænska liðið hefur verið í mikilli sókn síðustu ár og er í allra fremstu röð um þessar mundir eftir tvö síðustu stórmót. Væntanlega verður við ramman reip að draga fyrir okkur í leiknum. Er þetta ekki orðalag í þínum anda?,“ sagði Þórey Rósa hress fyrir eina af æfingum landsliðsins og beindi orðum sínum í gamansömum tón að blaðamanni handbolta.is sem stundum þykir forn í orðalagi.

Gaman að eiga möguleika

„Það er fyrst og fremst gaman að eiga ennþá möguleika á að komast í lokakeppni EM. Á meðan svo er þá horfum við bjartsýnar fram á veginn og njótum hvers leiks. Stemningin er fín innan hópsins. Við verðum að vera tilbúnar í fæting við Svíana sem vilja vera í miklum kontakt. Svo þurfum við að vera óhræddar að svara þeim og keyra á þær. Maður verður að vera svolítið kokkí í svona leikjum og trúa því að Ísland sé stórasta land í heimi,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona og leikmaður deildarmeistara Fram.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -