- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum öll að leggja harðar að okkur til að ná lengra

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari og leikmenn leika í Austurríki á EM undir árslok. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við verðum að viðurkenna það að við eru talsvert á eftir allra bestu landsliðum heims. Það á ekki að koma okkur á óvart. Við áttum góða kafla í báðum leikjum en þegar á heildina er litið voru Svíar töluvert sterkari en við. Þrettán og fjórtán marka tap er samt of mikið,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í samtali við handbolta.is í gær að loknum síðari leiknum við Svíþjóð í 7. riðli undankeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik. Svíar unnu í gær með 14 marka mun, 37:23, eftir 13 marka sigur á Ásvöllum á miðvikudagskvöld í fyrri viðureigninni.

Áfram góður möguleiki á EM

Þrátt fyrir töpin fyrir Svíum er íslenska landsliðið í öðru sæti í 7. riðli undankeppninnar en þarf að ná að a.m.k. þremur stigum í tveimur síðustu leikjunum, gegn Lúxemborg og Færeyjum í næsta mánuði, til að ná öruggu sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss í desember. Sænska landsliðið hefur þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins en liðið sem hafnar í öðru sæti er einnig öruggt um þátttökurétt á EM.

Farið yfir málin í miðjum leik við Svía á Ásvöllum á miðvikudagskvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Stígum áfram skref til framfara

„Liðin sem eru í hópi átta bestu, og Svíar eru í þeim hópi, standa okkur talsvert framar. Okkar markmið er óbreytt að halda áfram að bæta okkur sem lið og einstaklingar þannig að með tíð og tíma nálgumst við þau,“ sagði Arnar ennfremur en hann hefur á síðustu fjórum árum sem landsliðsþjálfari verið hvetjandi og tekist með leikmönnum að þoka landsliðinu áfram skref fyrir skref þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahópnum. Sem dæmi má nefna að fimm leikmenn sem voru í íslenska landsliðshópnum í gær tóku einnig þátt í leik við Svía í undankeppni stórmóts í apríl 2022.

Munur á líkamlega þættinum

„Við sem erum í þjálfun og leikmennirnir verðum öll að leggja harðar að okkur til að ná lengra en við höfum þegar náð. Við finnum að okkur vantar mikið upp á að ná þeim allra bestu. Til dæmis er ljóst að við erum eftir á í líkamlega þættinum í samanburði við sænska landsliðið,“ sagði Arnar en Svíar hafa verð í hóp fimm efstu liða á stórmótum frá 2020.

Undirbúningur hefst strax

„Undirbúningur fyrir síðustu leikina í riðlinum hefst strax á morgun. Við verðum að halda áfram að horfa í þá þætti sem betur mega fara hjá okkur og stytta og fækka slæmu köflunum. Markmið okkar hefur ekkert breyst. Við ætlum okkur á EM í desember á þessu ár. Það var allaf ljóst að leikirnir við Svía yrðu brekka til að læra af en aðrar viðureignir væru úrslitaleikirnir fyrir okkur um að ná öðru sæti riðilsins og um leið farseðli á Evrópumótið 2024,“ sagði Eyjamaðurinn Arnar Pétursson ákveðinn í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -