- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður alveg ný reynsla fyrir okkur – þétt dagskrá hjá kvennalandsliðinu

Thea Imani Sturludóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Elín Jóna Þorsteinsdóttir verða í landsliðinu á HM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við munum leika níu eða tíu leiki á skömmum tíma. Ljóst að álagið verður mikið og um leið mun reyna mjög á hópinn. Um leið má heldur ekki gleyma að við fáum einnig mikilvæga reynslu úr þessu öllu saman,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik á dögunum þegar hann valdi keppnishópinn fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik sem hefst í lok mánaðarins.

Íslenska landsliðið leikur 9 eða 10 leiki á 17 eða 18 dögum, frá 23. nóvember og fram til 10. eða 11. desember.

Fjögurra liða mót

Áður en landsliðið hefur keppni á HM tekur það þátt í fjögurra liða móti í Noregi ásamt landsliði Noregs, Angóla og Póllands. Mótið stendur yfir frá 23. til 26. nóvember. Fyrsti leikur á HM verður 30. nóvember við Slóveníu, 2. desember mætir landsliðið Frökkum og loks Angóla 4. desember.

Að lokinni riðlakeppninni taka annað hvort við þrjár viðureignir í milliriðlakeppni HM eða fjórir leikir í keppni um forsetabikarinn, svokallaða. Um bikarinn leika liðin sem reka lestina í riðlakeppninni á fyrsta stigi heimsmeistaramótsins.

Arnar Pétursson og leikmenn landsliðsins munu hafa í mörg horn að líta fyrir HM og á meðan mótið stendur yfir. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Níu eða tíu leikir

Milliriðlakeppninni lýkur 10. desember en síðasti leikur í forsetabikarnum verður 11. desember. Þar með er virðist ljóst að íslenska landsliðið leikur 9 eða 10 leiki á 17 eða 18 dögum, frá 23. nóvember og fram til 10. eða 11. desember.

„Þetta verður alveg ný reynsla fyrir okkur og hluti af þeirri vegferð sem við erum á með að markmiði að halda áfram að taka framförum og vera reglulega með á stórmótum í framtíðinni,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik á blaðamannafundi í síðustu vikur þegar landsliðshópurinn fyrir HM var valinn.

Síðasti leikur 17. nóvember

Síðasti leikurinn í Olísdeild kvenna fyrir HM verður föstudaginn 17. nóvember. Tveir af hverjum þremur leikmönnum í landsliðshópnum sem valinn var fyrir HM leika með íslenskum félagsliðum. Ráðgert er að landsliðið komi saman strax helgina 18. og 19. nóvember.

Sandra og Elín síðastar heim

Síðustu leikir landsliðskvenna sem leika utan Íslands verða laugardaginn 18. nóvember. Þá leika Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Sandra Erlingsdóttir með sínum liðum í Danmörku og í Þýskalandi. Þær koma til Íslands daginn eftir en staldra stutt við því fljótlega eftir helgina verður farið til Noregs.

Tengt efni:

Arnar valdi 18 leikmenn fyrir HM – ein úr HM-hópnum 2011

Þungt verkefni en um leið spennandi og skemmtilegt

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -