„Það verður gaman að spila við frábært Framlið,“ sagði Stefán Arnarson annar þjálfara kvennaliðs Hauka í samtali við handbolta.is um andstæðinga Hauka í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik. Fyrsta viðureign liðanna fer fram í kvöld í Lambhagahöll Fram í Úlfarsárdal. Flautað verður til leiks klukkan 19.40.
Stefán þekkir vel til hjá Fram eftir að hafa þjálfað lið félgsins í níu sigursæl ár en lét af störfum fyrir ári.
Stefán segir Haukaliðið vera tilbúið í slaginn við Fram. Reyndar setji það strik í reikninginn að hornakonan Rakel Oddný Guðmundsdóttir fingurbrotnaði á dögunum og verður frá keppni. Einnig hefur Ragnheiður Sveinsdóttir verið frá vegna meiðsla. „Vonandi kemur hún inn í þessa leiki með okkur,“ sagði Stefán og bætti við að meiri óvissa ríkti um þátttöku Rakelar Oddnýjar.
Haukar unnu Stjörnuna í tveimur leikjum í fyrstu umferð. Fram sat yfir í fyrstu umferð ásamt deildarmeisturum Vals sem einnig mætir til leiks í kvöld og keppir við ÍBV í N1-höllinni á Hlíðarenda klukkan 18.
Sjá einnig:
Umspil Olís kvenna: leikjadagskrá og úrslit