Haukur Þrastarson sleit krossband í hægra hné í viðureign Łomża Industria Kielce og Pick Szeged í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöldið. Tomasz Mgłosiek sjúkraþjálfari Kielce staðfesti þessi vondu en e.t.v. ekki óvæntu tíðindi á heimasíðu félagsins eftir hádegið.
Mgłosiek segir að grunur hafi strax vaknað um krossbandið væri slitið þegar Haukur meiddist á 23. mínútu í fyrrgreindum leik þegar hann lenti illa á hægri fæti eftir uppstökk. Grunurinn hafi verið staðfestur með myndatöku og læknisskoðun í gær og í morgun.
Aðgerð heima?
Framundan er aðgerð og endurhæfing. Hvort aðgerðin fari fram á Íslandi eða í Póllandi kemur ekki fram en frá því verður vafalaust gengið fljótlega. Rúm tvö ár eru síðan Haukur sleit krossband í vinstra hné. Þá fór hann í aðgerð hér á landi hjá Brynjólfi Jónssyni og Örnólfi Valdimarssyni eftir að hafa mátt velja á milli þess að fara í aðgerð á Íslandi, Póllandi eða á Spáni þar sem Talant Dujshebaev þjálfari þekkir vel til.
Var kominn í sitt fyrra form
Haukur hefur verið á miklum skrið síðustu vikur og á heimasíðunni segir ennfremur að Haukur hafi verið kominn í svipað leikform nú og þegar hann sleit krossbandið í vinstra hnénu.
Haukur er samningsbundinn Kielce til ársins 2025.
Reikna má með að það líði ár þangað til Haukur, sem er 21 árs, mætir á ný út á handknattleiksvöllinn.