Í gær var loksins staðfest að Spánverjinn Xavier Pascual hafi verið ráðinn þjálfari ungverska meistaraliðsins Veszprém sem Bjarki Már Elísson leikur með. Ráðningin hafði legið í loftinu í meira en hálfan mánuð eftir að Pascual náði samkomulagi um starfslok hjá rúmenska meistaraliðinu Dinamo Búkarest.
Fyrrverandi markvörður
Pascual, sem er 56 ára gamall og fyrrverandi markvörður m.a. hjá Barcelona, er ráðinn til fjögurra ára til ungverska liðsins. Hann tekur við af Momic Ilic sem hætti á dögunum eftir þriggja ára veru í þjálfarastólnum og ríflega áratug hjá félaginu sem leikmaður og þjálfari. Undir stjórn Ilic hefur Veszprém unnið ungverska meistaratitilinn og bikarkeppnina tvö ár í röð. Það hefur ekki nægt og tap í átta liða úrslitum Meistaradeildar í vor var ekki viðunandi.
Eitt markmið
Spánverjanum er ætlað að koma Veszprém á efsta stall í evrópskum handknattleik í karlaflokki. Markmið hans og liðsins á að vera sigur í Meistaradeild Evrópu. Þrátt fyrir að hafa haft á að skipa frábæru liði um margra ára skeið undir stjórn snjallra þjálfara þá hefur Veszprém aldrei unnið Meistaradeildina. Lið félagsins hefur fjórum sinnum leikið til úrslita, þar af þrisvar eftir að úrslitahelgarfyrirkomulagið var tekið upp 2010.
Einkar sigursæll
Pascual er einn sigursælasti félagsliðaþjálfari sögunnar. Hann stýrði Barcelona til sigurs í Meistaradeildinni 2011, 2015 og 2021. Einnig vann Barcelona spænska meistaratitilinn 11 sinnum undir stjórn Pascual, jafn oft deildarbikarinn og 10 sinnum bikarmeistaratitilinn. Einnig varð Barcelona fimm sinnum heimsmeistari félagsliða undir stjón Pascual. Hann hætti hjá félaginu sumarið 2021 í kjölfar niðurskurðar Juan Laporte forseta félagsins.
Sjá einnig:
Staðfesta uppsögn Ilic og Gulyás
Fullyrt að Bjarki Már fái nýjan þjálfara
Bjarki Már með ungversku meisturunum fram til 2026
Bjarki Már ungverskur meistari annað árið í röð
Bjarki Már bikarmeistari annað árið í röð