„Undirbúningur hefur gengið vel hjá okkur fyrir leikinn við Svartfellinga. Við funduðum tvisvar í gær og voru með rólega æfingu í keppnishöllinni. Unnum mest í áherslum okkar í varnarleiknum, bæði 5/1 vörninni og í 6/0 vörninni,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U19 ára landsliðsins við handbolta.is um undirbúning landsliðsins fyrir leikinn við Svartfellinga á Evrópumótinu í dag. Viðureignin hefst klukkan 15 í Bemax Arena í Podgorica í Svartfjallalandi.
Baráttan um 2. sætið
Úrslit leiksins skera úr um hvort Ísland eða Svartfjallaland fylgja danska landsliðinu áfram í keppni 12 efstu liða mótsins. Danir eru efstir í riðlinum og Litáar eru neðstir. Litáar munu leika um sæti 13 til 24 ásamt annað hvort Svartfellingum eða Íslendingum.








Betri varnarleikur
„Við verðum að bæta varnarleikinn í viðureigninni í dag frá síðustu tveimur leikjum okkar. Við erum ekki nógu sátt við varnarleik okkar til þessa. Svartfellingar hafa á að skipa öflugum leikmönnum fyrir utan. Skyttan vinstra megin er sterk, eins er miðjumaðurinn klókur auk þess sem línumennirnir eru einnig mjög góðir. Við verðum að ná upp mjög góðum varnarleik til þess að ná að svara fyrir okkur með hraðaupphlaupum,“ segir Ágúst Þór.
Úrslit leikja í B-riðli:
Danmörk – Ísland 31:25 (15:10).
Svartfjallaland – Litáen 36:31 (16:13).
Ísland – Litáen, 10. júlí 31:27 (14:11).
Danmörk – Svartfjallaland 28:26 (13:12).
Líkamlega sterkt lið
„Andinn er góður í hópnum hjá okkur. Allir leikmenn eru heilir heilsu og fyrst og fremst spenntir fyrir leiknum sem stendur fyrir dyrum. Okkur öllum er ljóst að við verðum að ná toppleik. Takist það er ég viss um að niðurstaðan geti orðið góð. Framundan er leikur við mjög líkamlega sterkt lið sem reyna mun verulega á okkur. Allt er hinsvegar mögulegt ef við náum fram okkar besta,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðsins.
Handbolti.is fylgist með leiknum í dag í textalýsingu. Flautað verður til leiks klukkan 15.
EM19-’25: Leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit og staðan