„Við notuðum daginn í gær til þess núllstilla okkur. Tókum algjört frí frá handbolta og vöknuðum ferskar í morgun tilbúnar að taka þátt í nýrri keppni, keppni sem við ætlum okkur að vinna,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskonan þrautreynda í samtali við handbolta.is í dag rétt áður en íslenska landsliðið fór á æfingu í Frederikshavn á Norður Jótlandi spurð hvort leikmenn hafi hrist af sér vonbrigðin eftir að hafa ekki náð inn í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik.
Bikarinn heim
„Við viljum verða forsetabikarmeistarar og vinna bikar. Íslenskt landslið keppir ekki oft um bikar, hvaða nafni sem hann nefnist. Okkar markmið er að fara heim með bikarinn frá Frederikshavn úr því að við erum hingað komnar,” sagði Þórey Rósa sem leikur sinn 130. landsleik á morgun gegn Grænlandi í fyrstu umferð riðlakeppni forsetabikarsins.
Alveg ný keppni
„Við lítum á þetta sem alveg nýja keppni og ætlum okkur að vinna alla leikina. Fá um leið góða leiki. Gera það besta fyrir liðið og fá sem mest út úr þessu.
Gott að fá útrás
Þótt manni hafi langað heim strax eftir leikinn við Angóla í Stafangri á mánudaginn þá verður ágætt að fá útrás fyrir vonbrigðin í næstu leikjum,” sagði Þórey Rósa sem býr sig undir allskyns andstæðinga enda eru þeir fjölbreyttir. Auk leiksins við Grænlendinga á morgun bíða landslið Paragvæ á laugardaginn og Kína á mánudaginn áður en kemur að úrslitaleik um sæti og vonandi um forsetabikarinn á miðvikudaginn eftir viku.
Von á Grænlendingum frá Álaborg
„Það er bara spennandi verkefni á margan hátt að mæta nýjum andstæðingum sem við þekkjum lítið. Það hefur til dæmis verið mikil stemning í kringum grænlenska liðið á HM. Við sáum það í Stafangri þar sem þær voru í hinum riðlinum sem þar var. Mér skilst að von sé á hópi Grænlendinga frá Álaborg á leikinn á morgun. Ég vonast eftir góðum leik gegn stemningsliði Grænlendinga,” sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í samtali við handbolta.is í í Frederikshavn í dag.