Signý Pála Pálsdóttir, markvörður hefur ákveðið að breyta til og leika með Víkingi á næsta keppnistímabili, hið minnsta. Hún hefur þessu til staðfestingar skrifað undir samning við félagið.
Signý Pála er 21 árs gömul og var markvörður hjá Gróttu í Grill 66-deildinni á síðusta leiktíð eftir að hafa verið lánuð til félagsins frá Val. Hún þekkir þar með vel til Grill 66-deildarinnar.
Konur – helstu félagaskipti 2023
Signý Pála er annars uppalin hjá Val og lék upp yngri flokka félagsins og á einnig leiki að baki með meistaraflokki. Hún átti sæti í U19 ára landsliðinu fyrir tveimur árum sem tók þátt í B-hluta Evrópumótsins.
„Ég er mjög spennt að takast á við verkefni vetrarins í Víkingi með góðu og efnilegu liði og metnaðarfullu þjálfarateymi,“ er haft eftir Signýju Pálu í tilkynningu frá Víkingi í morgun.
„Við erum gríðarlega spennt að fá Signýju til félagsins og hlökkum til að sjá hana vaxa og dafna í Víkingsbúningnum á komandi tímabili,“ segir ennfremur í tilkynningu Víkings.