- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vildi að sjálfsögðu vinna leikinn

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Ég hefði að sjálfsögðu viljað vinna leikinn, allavega fá eitt stig eins og leikurinn þróaðist. Því miður varð það ekki raunin,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í gærkvöld eftir að Valur tapaði fyrir Haukum, 28:26, í hörkuleik í 19. umferð Olísdeildar. Þetta var fyrsta tap Valsara síðan um miðjan desember.

Skemmtilegur leikur

„Annars var þetta skemmtilegur og vel dæmdur leikur þar sem við byrjuðum betur áður en Haukar náðu yfirhöndinni þegar á leið fyrri hálfleik. Þeir voru líka sterkari framan af síðari hálfleik. Okkur tókst að þétta vörnina þegar á leið auk þess sem Guðmundur datt út hjá Haukum. En þeim tókst að klára þetta,“ sagði Óskar Bjarni sem lék án nokkurra leikmanna sem fengu tækifæri til þess að safna kröftum fyrir Evrópuleik við Steaua í Búkarest á sunnudaginn.

Dýr hraðaupphlaup

„Það reyndist okkur dýrt að skora ekki úr þremur hraðaupphlaupum í röð á einni mínútu þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Tvisvar var varið frá okkur og einu sinni heppnaðist ekki sending fram leikvöllinn. Á þessum tíma fannst mér við vera að ná betri tökum á leiknum eins og við gerum oft þegar við vinnum svokallaða iðnaðarsigra,“ sagði Óskar Bjarni.

Smá „hnjask“ og meiðsli hrjá leikmenn Vals. Að sögn Óskars Bjarna hafi af þeim ástæðum sumir ekki verið með og aðrir þurft að leika í stöðum sem þeir eru e.t.v. ekki vanir. Ofan á annað hafi einhverjir leikið meira en æskilegt var.

Fleiri U-liðs menn

„Það verður ákveðin kúnst að stilla upp liðinu í næstu leikjum því dagskráin framundan er þétt, með tveimur leikjum í viku auk ferðalaga vegna Evrópukeppni. Af þeim sökum er alveg ljóst að ég verð að tefla fram fleiri leikmönnum úr U-liðinu á næstunni. Það er gott. Þeir hafa gott af því,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson sem fer með lið sitt til Rúmeníu á föstudaginn.

Fyrri leikurinn við Steaua verður á sunnudaginn í Búkarest og sá síðari í N1-höll Valsmanna laugardaginn eftir rúma viku. Í millitíðinni stendur fyrir dyrum heimaleikur við Gróttu í Olísdeildinni.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -