- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vilji til að semja við Rúnar til lengri tíma

Rúnar Sigtryggsson þjálfari SC DHfK Leipzig. Mynd/Klaus Trotter
- Auglýsing -

Karsten Günther framkvæmdastjóri þýska handknattleiksliðsins SC DHfK Leipzig segir að vilji sé til þess innan félagsins að gera nýjan samning við Rúnar Sigtryggsson þjálfara liðsins. Menn hafi rætt saman eftir að keppnistímabilinu lauk og taki upp þráðinn að loknu sumarleyfi. Rúnar er samningsbundinn SC DHfK Leipzig út keppnistímabilið 2025. Engu að síður vilja stjórnendur SC DHfK Leipzig helst ekki vera með lausa enda til lengdar þegar kemur að þjálfaranum sem hefur náð góðum árangri.

Günther segir að rækilega hafi verið farið yfir síðasta tímabil. Ánægja ríkir með þau framfaraskref sem liðið hefur tekið undir stjórn Rúnars. „Við erum ekki undir tímapressu í viðræðunum. Við munum af yfirvegun gefa okkur þann tíma sem þarf,“ sagði Günther við Sport Bild.

Rétti af stefnuna

Rúnar tók við þjálfun SC DHfK Leipzig í nóvember 2022 eftir að hafa hætt með skömmum fyrirvara hjá Haukum. Staðan SC DHfK Leipzig var slæm þegar Rúnar kom að útgerðinni. Stigasöfnun gekk treglega og virtist flest stefna eina leið. Rúnar var fljótur að rétta af stefnuna, m.a. með sjö sigurleikjum í röð. Hafnaði SC DHfK Leipzig í 11. sæti af 18 liðum vorið 2022. Enn betur gekk á síðasta keppnistímabili. Þá hafnaði liðið í áttunda sæti þrátt fyrir að meiðsli hafi sett sitt strik í reikninginn.

Fleiri Íslendingar

Rúnar er ekki eini Íslendingurinn í herbúðum SC DHfK Leipzig. Viggó Kristjánsson er ein kjölfesta leikmannahópsins auk þess sem Andra Má Rúnarssyni hefur vaxið ásmegin síðan hann kom til félagsins fyrir ári.

Leikur við pólsku meistarana

Formlega æfingar fyrir næsta tímabil hefjast um miðjan næasta mánuð. M.a. mætir SC DHfK Leipzig pólska meistaraliðinu Wisla Plock í æfingaleik 24. ágúst. Sem kunnugt er gekk Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður til liðs við Plock-liðið á dögunum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -