- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni – Stigið…Sigtryggur vann!

Rúnar Sigtryggsson einbeittur við hlíðarlínuna í leik með Leipzig. Mynd/Facebooksíða SC DHfK Handball
- Auglýsing -

Málshátturinn; Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni, á heldur betur vel við þegar hugsað er til Sigtryggs Guðlaugssonar, smiðs á Akureyri, sonar hans Rúnars og tengdadóttur Heiðu Erlingsdóttur. Öll voru þau afreksmenn í handknattleik og frá þeim eru komnir miklir handknattleikskappar. Rúnar, sem var Evrópumeistari með spænska liðinu Ciudad Real 2003, upplifir nýjan áfanga þegar hann stjórnar liði sínu, Leipzig, gegn Berlínar-refunum á morgun. Þá verður hann fyrstur Íslendinga til að stjórna syni sínum, Andra Má, í leik í 1. deild (Bundesligunni) í Þýskalandi, en áður hafði hann stjórnað eldri syni sínum, Sigtryggi Daða, þar í leikjum í 2. deild og einnig bróður sínum, Árna Þór.

Rúnar hefur upplifað mörg ævintýri á handknattleikssviðinu, en það mesta er án efa þegar hann lék stórt hlutverk er Akureyraliðin Þór og KA voru sameinuð 2006. Það hafði aldrei neinum dottið í hug að hægt væri að sameina tvo trúarflokka; úr brekkunni og á Eyrinni. En Þorparanum Rúnari tókst það. Pabbi hans, Sigtryggur, hefur örugglega verið sáttur. Þessi mikli Þórsari var með taugar til KA.

Sigtryggur gekk undir viðurnefninu „Bolli“ á uppvaxtarárunum á Akureyri og var ástæðan fyrir því að pilturinn þótti þéttur á velli og sællegur, að eigin sögn; er Sigtryggur rifjaði eitt sinn upp fyrstu árin sem hann lagði stund á handknattleik.

Það voru alls ekki allir dagar „Bolludagar“ hjá Sigtryggi. Hann byrjaði ungur að æfa íþróttir og það var handknattleikur sem vann hug hans allan og skilaði honum í hóp bestu handknattleiksmanna landsins.

Taug til KA

Þó að Sigtryggur sé mikill Þórsari, liggja taugar til KA. Með Brekkuliðinu æfði hann þar til hann var 12 ára (1962), en þá færði hann sig niður á Eyrina og gerðist Þorpari. 17 ára var Sigtryggur kominn í meistaraflokk Þórs og um leið í úrvalslið Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA.

Handknattleikur var ekki vinsæll á Akureyri á uppeldisárum Sigtryggs; þar réði ríkjum skíði, skautar og fótbolti. Í handknattleik voru aðeins „slagsmálaleikir“ Þórs og KA sem voru vinsælir.

Þetta átti eftir að breytast þegar Íþróttaskemman á Akureyri var formlega vígð 28. janúar 1967. Þá var boðið upp á malbikaðan gólfflöt inn í skemmunni, 18×32 m og áhorfendasvæði sem rúmuðu allt að 550 manns. Hreiðar Jónsson, umsjónarmaður, réði ríkjum í „Skemmunni“. Hann var þjálfari Þórsliðsins sem varð sigurvegari í 2. deild 1973 og lék síðan í fyrsta skipti í efstu deild 1973-1974.

„Turnarnir tveir!“

Hreiðar, bróðir Dr. Ingimars Jónssonar, þjálfara FH, undirbjó þátttöku Þórsliðsins mjög vel, en ljóst var að liðið yrði byggt í kringum tvo risa; Sigtryggs Guðlaugssonar (23 ára) og Þorbjörns Jenssonar (20 ára), sem voru stórir og sterkir og harðir í horn að taka; skotharðir og skotvissir. Þeir fengu viðurnefnið „Turnarnir tveir!“ Aðrir sem komu við sögu voru Tryggvi Gunnarsson, markvörður, Ólafur Sverrisson, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Árni Gunnarsson og Benedikt Guðmundsson, svo að nokkrir séu nefndir.

Þrátt fyrir góða spretti og baráttu féll Þór aftur niður í 2. deild og kom síðan ekki upp aftur fyrr en 1992. Risarnir tveir voru í hópi markahæstu manna, en Axel Axelsson, Fram – sem lék í Bundesligunni er hún var stofnuð 1977, var markakóngur með 106 mörk. Hörður Sigmarsson, Haukum, var næstur á blaði með 99 mörk og síðan komu leikmenn sem áttu eftir að leika í Þýskalandi; Einar Magnússon, Víkingi, 98 mörk og Gunnar Einarsson, FH, 97 mörk. Sigtryggur var í sjötta sæti með 75 mörk og Þorbjörn í tíunda sæti með 55 mörk.

Sigtryggur hélt tryggð við Akureyri og lék áfram með Þór, en Þorbjörn fór til náms í Reykjavík 1977 og gekk til liðs við Val, varð landsliðsmaður og leikmaður með sænska liðinu Malmö, kom aftur heim og lék með Val, gerðist þjálfari liðsins sem var afar sigursælt undir hans stjórn. Þorbjörn varð síðar landsliðsþjálfari.

Rúnar Sigtryggsson náði góðum árangri sem leikmaður og síðar sem þjálfari í Þýskalandi.

 Hreinræktaður Þórsari

Þegar Sigtryggur og félagar hjá Þór tryggðu sér sæti í 1. deild 1973, var Rúnar sonur hans eins árs og átti hann eftir að feta í fótspor pabba síns og ná frábærum árangri í göldrum handknattleiksins. 

Það voru engar KA-taugar í Rúnari, sem var hreinræktaður Þorpari; ólst upp á hernaðarsvæði Þórs á Eyrinni, þar sem hann kynntist fljótlega að „óvinurinn“ var með heimasvæði í innbænum; upp í brekkunni! Þegar Þór og KA leiddu saman stríðshesta sína, var boðið upp á mikla baráttu; „Orrustuna miklu.“

Rúnar fetaði í fótspor pabba síns og klæddist herklæðum Þórs þar til hann var 21 árs, 1993, að hann fór til náms í Reykjavík. Hann gekk þá til liðs við Val og varð Íslandsmeistari með liðinu á fyrsta ári, 1994. Afrekaði það sama og Þorbjörn, félagi pabba hans, gerði með Val 1978.

 Í Þórspeysunni innan undir!

Það kom í ljós 1997 hvað Þórshjarta Rúnars var stórt, þegar hann lék bikarúrslitaleik með Haukum í Laugardalshöllinni; já, gegn KA!, þar sem hann skoraði 7 mörk í níu skotum í sigurleik, 26:24.

Rúnar sagði eftir leikinn að það hefði verið ljúfara ef hann hefði verið að leika með Þór, en það hafði alltaf verið ljúft að leggja KA að velli. “Ég er þó í Þórspeysunni innan undir Haukapeysunni. Það hefur mikið að segja!”

Stigið…Sigtryggur vann!

Það var ekki ætlun mín að fjalla mikið um félagsríg á Akureyri í þessum pistli.

Snúum okkur að afkomendum Sigtryggs og afrekum þeirra á handknattleikssviðinu.

Ég segi bara eins og glímudómarinn um árið; „Stigið….! Sigtryggur vann!“

Eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Val 1994, ákvað Rúnar að færa sig um set í Reykjavík – fara til Víkings, félagið sem unnusta hans, Heiða Erlingsdóttir, lék með. Heiða hafði orðið Íslands- og bikarmeistari með Víkingi 1992 og 1994. Heiða var við nám í Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni veturinn 1991-1992 og kom þaðan ásamt markverðinum Sigrúnu Ólafsdóttur á æfingar og leiki. Heiða ákvað að leika með Selfossi seinni vetur sinn að Laugarvatni, 1992-1993, þar sem það var styttra að fara á æfingar. Að loknu námi vorið 1993 gekk hún aftur til liðs við Víking.

Sumarið 1995 ákváðu Rúnar og Heiða að halda til Danmerkur, þar sem Rúnar settist á skólabekk. Hann lék einnig með 2. deildarliðinu Bjerringbro, sem Jan Larsen þjálfaði, en hann hafði þjálfað Þór á Akureyri. Liðið var með herbúðir rétt austan við Árhús. Heiða gerðist leikmaður með 2. deildarlðinu Vorup, sem var á næstu grösum.

Rúnar og Heiða fylgjast með leik á Íslandi 1999. Sigtryggur Daði, þriggja ára, sem er fyrir aftan Rúnar, bendir inn á völlinn og sér eitthvað athugavert á varnarleik.

Rúnar og Heiða ákváðu að snúa heim á ný og sendi hann inn félagsskipti í Víking, sem var í harðri fallbaráttu. Bogdan-tímabilið var hrunið! Stóran þátt í ákvörðun þeirra var að Heiða var barnshafandi og eignuðust þau soninn Sigtrygg Daða 20. júní 1996. Við köllum hann til leiks síðar!

Víkingur féllu eftir 27 ára veru í 1. deild. Hersveitarmenn Bogdans voru farnir og rjúkandi rúst í Fossvogi.

Rúnar heldur þá til Hafnarfjarðar og gerist leikmaður Hauka 1996-1998 og verður bikarmeistari með liðinu 1997, eftir rimmu við KA, eins og fyrr segir.

 Í víking til Göppingen

Eins og sannir Víkingar hélt Rúnar í víking og herjaði á þýskri grund með 2. deildarliðinu Göppingen. Heiða fór með eiginmanni sínum til Þýskalands sumarið 1998 til að skoða aðstæður og leggja sína blessun á að Rúnar skrifaði undir tveggja ára samning. Heiða kom síðan ekki tómhent heim; var með upp á vasann samning við 2. deildarliðið Almstadt, sem var frá samnefndum bæ um 100 km frá Göppingen. Tvö þýsk félög vildu fá hana, en hún valdi Almstadt.

Rúnar var tvö keppnistímabil hjá Göppingen, en hélt á ný heim árið 2000 og að sjálfsögðu fór hann beint til Hauka. Varð Íslandsmeistari með liðinu 2001 og bikarmeistari 2001 og 2002.

 Óvænt til Spánar

Rúnar var síðan aftur á leiðinni til Göppingen, sem hafði tryggt sér 1. deildarsæti, sumarið 2002. Það breyttist óvænt, því að forráðamenn spænska liðsins Ciudad Real, sem var Evrópumeistari bikarhafa, höfðu samband við Rúnar og buðu honum tveggja ára samning. Áður hafði liðið gert samning við Ólaf Stefánsson, Magdeburg, um að hann kæmi til liðsins sumarið 2003. Rúnar gat ekki hafnað tilboði Ciudad.

Þegar Rúnar skrifaði undir samninginn við Ciudad 7. júlí, voru aðeins liðnir 18 dagar síðan hann og Heiða eignuðust sinn annan son, Andra Má. Það var nóg að gera hjá fjölskyldunni í smábæ sunnan við Madrid. Sigtryggur Daði var orðinn sex ára og byrjaður í skóla.

Andri Már Rúnarsson í búningi Stuttgart.

Rúnar varð bikarmeistari með liðinu og síðan varði Ciudad Real Evrópubikarmeistaratitil sinn, 2003.

Forráðamenn félagsins vildu meira; Ólafur og Zaki, leikstjórandi egypska landsliðsins, ásamt slóvanskri skyttunni Pajovic, voru á leiðinni, en fyrir voru sjö spænskir landsliðsmenn, einn sænskur, einn danskur og einn landsliðsmaður frá Kúbu, ásamt einum rússneskum.

Leikmannahópurinn var orðinn stór og Rúnar sá fram á að hann fengi fá tækifæri og fékk sig lausan og gekk til liðs við þýska liðið Wallau Massenheim sumarið 2003. Rúnar lék aðeins eitt keppnistímabil með liðinu, sem var í miklum fjárhagserfiðleikum. 

Rúnar gerðist leikmaður með ThSV Eisenach, sem hafði fallið í 2. deild, í júní 2004 og 27. október gerðist hann einnig þjálfari liðsins, tók við starfi Zlatko Feric, sem var rekinn. Þar með tók Rúnar fyrstu skref sín sem þjálfari.

Rúnar og Heiða með samtals 178 landsleiki

Rúnar Sigtryggsson var klókur og útsjónasamur leikmaður sem lék bæði sem skytta og leikstjórnandi. Rúnar las leikinn vel, var skotviss og sækinn. Þá var hann öflugur varnarmaður, sem var ekki þekktur fyrir að gefa tommu eftir. Þessa hæfileika nýtti Rúnar sér og hann fór að þjálfa. Lét ekki æsing slá sig út af laginu, var yfirvegaður.

 * Rúnar lék með landsliðinu á árunum 1993-2004, sem leikmaður með Val, Göppingen, Haukum, Ciudad Real og Wallau Massenheim – alls 121 leik og skoraði 105 mörk.

 * Heiða Erlingsdóttir lék með landsliðinu á árunum 1989-1998, sem leikmaður með Víkingi, Selfossi og þýska liðinu Almstadt – alls 57 leiki og skoraði 78 mörk.

Þess má geta að Heiða lék knattspyrnu með KR og þótti efnileg, en hún valdi að leika handknattleik.

 Nýtt hlutverk á Akureyri!

Rúnar kom heim frá Þýskalandi 2005, tók við þjálfun Þórsliðsins og lék hann einnig með liðinu. Þór, eins og KA, áttu þá í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Rúnar, sem var einnig framkvæmdastjóri Þórs, fékk að kynnast því. Það var erfitt fyrir Akureyrarliðin að fá styrktaraðila, mun erfiðara heldur en liðin á höfuðborgarsvæðinu. Handknattleiksdeild Þórs var nálægt gjaldþroti.

Handknattleiksunnendur á Akureyri gerðu sér fyllilega grein fyrir alvarlegu ástandi og urðu raddir um sameiningu liðanna, Þór og KA, æ háværari. Margir höfðu miklar áhyggjur og þá var laglína Stuðmanna; „Snúum bökum saman, stöndum þétt saman…“ vinsæl og margir vitnuðu í orð sem voru vinsæl hjá verkalýðsforingjum: „Sameinaðir stöndum vér – sundraðir föllum vér!“

Rúnar var kominn í hlutverk, sem hann hafði aldrei reiknað með; að sameina krafta erkifjendanna Þór og KA. Hann sagðist fara í þetta verkefni af fullum krafti og takmarkið var eitt; að efla handknattleik á Akureyri.

Akureyringar ákváðu að sameina handknattleikslið Þórs og KA og láta þau leika undir nafni Akureyrar – handboltafélag. Fyrsta keppnistímabilið í 1. deild var 2006-2007. Þjálfarar liðsins voru tveir – Rúnar, Þór og Sævar Árnason, KA.

„Það var eðlilega svolítið vandamál að koma þessum tveimur liðum saman,“ sagði Rúnar, en það hafi gengið upp. „Mesti vandinn var félagslegi þátturinn enda má segja að tveir trúflokkar hafi verið spyrtir saman, sem er ekki auðvelt. Það hefur hins vegar gengið vel með allt sem snýr að liðinu. Allir sem koma að liðinu hafa lagt á sig gífurlega vinnu. Mörgum finnst sameiningin helgispjöll, en ég held að flestir hafi verið sammála því að það hlyti að koma að þessari sameiningu. Það þýðir ekki að berja höfðinu við stein. Þetta snýst líka um fjárhagslegt bolmagn – annaðhvort þurftu menn að horfa á liðin síga neðar og neðar, eða taka af skarið, rétt eins og hefur gerst annars staðar. Við sem stöndum að liðinu vitum að þetta tekur á og að það verði vandlega fylgst með gengi okkar en við tökum því. Þetta verður ekki vandamál,“ sagði Rúnar.

Rúnar, sem vann frábært starf við sameininguna, var þjálfari Akureyrar-liðsins til ársins 2010, en þá taldi hann rétt að nýir menn tækju við. Atli Hilmarsson, sem var þjálfari Íslandsmeistara KA 2002, tók við keflinu. Rúnar ætlaði að leggja skóna á hilluna 2008, lék sitt síðasta tímabil 2008-2009.

Samvinna Þórs og KA stóð yfir í 11 ár, eða þar til KA sagði sig frá samstarfinu 2017.

 Rúnar aftur til Þýskalands

Rúnar hélt aftur til Þýskalands sumarið 2012, þegar hann fékk þjálfaratilboð frá 2. deildarliðinu EHV Aue. Hann tók þjálfarapróf í Þýskalandi, til að öðlast réttindi til að þjálfa í deildarkeppninni. Hann var fjögur tímabil hjá Aue. Sumarið 2016 leysti Aue hann undir samningi, þannig að hann gæti farið til 1. deildarliðsins Balingen-Weilsetten. Rúnar sagði að það væri mikil áskorun að þjálfa 1. deildarlið.

Balingen féll á fyrsta tímabili Rúnars, 2016-2017 og þegar hann tilkynnti að hann myndi yfirgefa liðið 2018, var honum óvænt sagt upp starfi í lok október 2017. Liðið var þá í efri hluta 2. deildar.

Árni Þór Sigtryggsson í búningi EHV Aue.

Stuttgart hafði áhuga að fá Rúnar, en viðræður hans við liðið gengu ekki upp, þannig að hann gerði þriggja ára samning við Stjörnuna. Árni Þór, bróðir hans, gerðist leikmaður með Stjörnunni og aðstoðarþjálfari Rúnars.

Vorið 2020 hætti Rúnar hjá Stjörnunni eftir tveggja ára starf. Undir lok ársins 2020 óskað EHV Aue eftir kröftum Rúnars, þar sem þjálfari liðsins Stephan Swat get ekki þjálfað vegna veikinda, Covid. Rúnar þjálfaði liðið út keppnistímabilið vorið 2021.

Rúnar var ráðinn þjálfari Hauka sumarið 2022, en stoppaði þar stutt. Neyðarkall kom frá þýska 1. deildarliðinu SC DHfK Leipzig í lok október. Liðið óskaði eftir kröftum Rúnars, sem fékk sig lausan frá Haukum og tók við þjálfun Leipzig liðsins í byrjun nóvember, þegar staða liðsins var afleit; var í bullandi fallhættu. Rúnar náði að snúa genginu við í snarhasti; Leipzig vann fyrstu sjö leikina undir stjórn hans.

Forráðamenn SC DHfK Leipzig voru yfir sig ánægðir með framgöngu Rúnars og árangur liðsins. Rúnar er með samning til 2025.

 Litli bróðir öflugur!

Árni Þór Sigtryggsson, litli bróður Rúnars, hóf feril sinn hjá Þór og varð fljótt einn besta vinstrihandarskytta landsins. Þýsku liðin Flensburg og Göppingen vildu fá hann í sínar raðir er hann var 20 ára, 2005. Árni Þór var ekki tilbúinn að fara út, valdi að leika með Haukum og gerði tveggja ára samning við Hafnarfjarðarliðið.

Árni Þór hélt til Spánar sumarið 2007, er hann gerði tveggja ára samning við Granollers. Hann hafði áður hafnað tilboði frá danska liðinu Álaborg. Honum líkaði ekki vistin hjá Granollers, og fékk sig lausan frá samningi 2008.

Þá lá leið hans til Akureyrar, þar sem hann lék við hlið Rúnars hjá Akureyri handboltafélag, tvö tímabil, en Rúnar var einnig þjálfari liðsins.

Hinn 29. apríl 2010 skrifaði Árni Þór undir samning við þýska liðið Dormagen, en þegar hann kom til Þýskalands um sumarið var búið að breyta nafni félagsins í Dormagen HC Rheinland, sem hann lék með 2010-2011. Félagið var í miklum fjárhagserfiðleikum, sem varð til þess að Árni Þór fékk lausan samning og fór á flakk; Lék með TV Bittenfeld 2011-2012, TSG Friesenheim 2011-2012 og EHV Aue, undir stjórn Rúnars, 2013-2017.

Árni Þór kom þá aftur heim 2017, gerðist leikmaður með Val, en lék síðan með Haukum og Stjörnunni, þar sem hann var einnig aðstoðarþjálfari Rúnars.

Sigtryggur Daði Rúnarsson í leik með Lübeck-Schwartau.

 Feðgar á ferð!

Synir Heiðu og Rúnars, Sigtryggur Daði og Andri Már, hafa fetað í fótspor þeirra, tekið handknattleikinn föstum tökum. 

 * Sigtryggur Daði æfði og lék undir stjórn pabba síns hjá 2. deildarliðinu EHV Aue á árunum 2012-2016 og einnig hjá Balingen-Weilsetten í 2. deild 2017-2018. Hann var síðan hjá Lübeck-Schwartau 2018-2020, en kom heim 2020 og hóf að leika með ÍBV.

Sigtryggur Daði var lánaður til austurríska liðsins Alpla HC Hard, sem Hannes Jón Jónsson þjálfar,  í rúma tvo mánuði í árslok 2022, þar sem margir leikmenn liðsins voru meiddir.

 * Andri Már kom frá Þýskalandi 2020 og gekk til liðs við Fram. Hann fór til 1. deildarliðsins Stuttgart 2021-2022, en þaðan til Hauka 2022-2023. Andri Már svaraði kalli pabba síns í sumar og gerðist leikmaður með SC DHfK Leipzig og mun leika sinn fyrsta leik gegn Berlínar-Refunum á morgun, mánudag 28. ágúst.

Heiða Erlingsdóttir með börnunum sínum fyrir eina viðureign í úrslitarimmu ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Andri Már, Eva Ingibjörg, 17 ára, Heiða og Sigtryggur Daði. Mynd/Þórhildur Örlygsdóttir

 Bræðraslagur!

Heiða var mætt ásamt dóttur sinni, Evu Ingibjörgu, 17 ára, til Eyja, til að fylgjast með baráttu sonanna, Sigtryggs Daða og Andra Más, um Íslandsmeistaratitlinn 2023 í Eyjum. Sigtryggur Daði lék með ÍBV, Andri Már með Haukum. Þær mæðgur voru hlutlausar; báðar klæddust bolum, sem voru skiptir í tvennt. Annar helmingurinn ÍBV, hinn Haukar – eins og sést á myndinni hér fyrir ofan sem var tekin fyrir rimmuna.

Stigið… Sigtryggur vann! Sigtryggur fagnaði sigri í meistararimmunni og varð Íslandsmeistari eins og foreldrar hans; Heiða tvisvar með Víkingi og Rúnar einnig tvisvar, einu sinni með Val og einu sinni með Haukum.

Andri Már er það ungur; að hans tími mun örugglega koma! 

Leipzig-höllin, þar sem Rúnar ræður ríkjum.

 Ballið er að byrja

Þegar Rúnar stjórnar liði sínu gegn Füchse Berlín á heimavelli annað kvöld í fyrsta leik liðsins í 1. deild á tímabilinu 2023-2024, leikur sonur hans, Andri Már, 21 árs, undir hans stjórn. Þetta mun verða í fyrsta skipti sem íslenskir feðgar eru saman í leik í „Bundesligunni“ í Þýskalandi. Með liðinu leikur einnig landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson. Arena Leipzig tekur 6.327 áhorfendur og er reiknað með að hún verði þéttsetin.

Auf Wiedersehn.

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -