„Þegar ég lít baka yfir mótið þá er ég ánægður með frammistöðuna. Liðið bætti sig jafnt og þétt í gegnum mótið. Við áttum einn slakan leik, gegn Noregi. Heilt yfir voru leikirnir góðir hjá liðinu og vel út færðir að undanskildum smáatriðum hér og þar sem þarf að vinna í. Verði það gert getur þetta lið náð ennþá lengra,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U19 ára landsliðs kvenna þegar hann gerði upp þátttöku íslenska landsliðsins á Evrópumótinu sem lauk í Podgorica í Svartfjallalandi í dag.
„Metnaðurinn er mikill hjá stúlkunum fyrir að ná lengra fyrir utan að liðsheildin er frábær. Ég er viss um að framtíðin sé björt,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.
Teikna þarf upp prógram
Ágúst leggur áherslu á að til þess að liðið taki fleiri framfaraskref og ná ennþá betri árangri á heimsmeistaramóti 20 ára landsliða eftir ár verði að vinna markvisst með hópnum.
„Ef teiknað er upp gott prógramm fyrir næsta árið með góðum æfingum auk þess að nýta landsliðsgluggana næsta árið til spila vináttulandsleiki þá er ég sannfærður um liðið getur náð góðum árangri á HM,“ segir Ágúst Þór og undirstrikar að meginmarkmiðið hafi náðst að þessu sinni að tryggja Íslandi sæti á HM 20 ára landsliða eftir ár.
Ísland kvaddi EM með stórsigri á Tyrkjum
Undirstrikar framfarir
„Á eftir okkur á þessu móti eru meðal annars landslið Tyrklands, Hollands, Portúgals, Slóveníu. Þrjú þau síðastnefndu náðu ekki í HM sæti. Að við höfum náð að halda þessum þjóðum meðal annars fyrir aftan okkur undirstrikar framfarir að mínu mati. Ég vona svo innilega að stelpurnar haldi áfram að bæta sig og geri flotta hluti á HM á næsta ári,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson sem árum saman hefur þjálfað yngri landslið kvenna í samstarfi við Árna Stefán Guðjónsson. Hvort samstarfi þeirra með yngri landslið kvenna verður fram haldið stendur hinsvegar eftir ósvarað.
Karakter og vilji var fyrir hendi til að ljúka mótinu faglega
EM19-’25: Úrslit í leikjum í krossspili og um sæti