0
Rut Arnfjörð Jónsdóttir leikmaður Hauka er sú eina í íslenska landsliðinu sem tekið hefur þátt í báðum Evrópumótunum kvenna sem Ísland hefur tekið þátt í, 2010 í Danmörku og tveimur árum síðari í Serbíu. Hún er næst leikjahæst í landsliðshópnum sem valinn var til þátttöku að þessu sinni með 114 landsleiki. Rut segir margt hafa breyst síðan hún hafi fyrst tekið þátt í EM tvítug að aldri en væntingarnar hafi hinsvegar ekki mikið breyst.
Eftirvæntingin var mikil
„Maður vissi ekki alveg hvað maður var að fara út í árið 2010. Ég man að ég var frekar stressuð. Eftirvæntingin var mikil. Núna er maður bara á öðrum stað í lífinu og hef um margt annað að hugsa,“ sagði Rut í samtali við handbolta.is í gær áður. Landsliðið hélt út til Sviss í morgun þar sem leiknir verða tveir vináttuleikir á morgun og á sunnudaginn.
Sjá einnig: Þrjár voru með á EM 2010 og 2012
Ekki í sama hlutverki og áður
„Mitt hlutverk verður ef til vill minna inni á handboltavellinum en áður var. Ég verð kannski meira í að aðstoða stelpurnar en ég mun leggja mig alla fram, hvort heldur utan vallar sem innan,“ sagði Rut og bætir við að kvíðahnúturinn sem áður var sé ekki fyrir hendi núna enda reynslan meiri.
„Maður hefur minni tíma til þess að hugsa um þessa hluti. Áður fór meiri tími í pælingar og stress en nú þegar maður er kominn á annan stað í lífinu.“
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Sterkir andstæðingar
Spurð um væntingar um árangur landsliðsins á EM segir Rut erfitt að segja til um. EM er sterkt mót og andstæðingar íslenska landsliðsins metnir öflugri, þar á meðal eru hollenska og þýska landsliðið sem hrepptu fimmta og sjöunda sæti á Ólympíuleikunum í sumar.
Höfum vonandi nálgast
„Það hefur verið stígandi í leik liðsins á undanförum árum og í síðustu verkefnum. Ég er spennt fyrir að mæta sterkum liðum og ég vona um leið að við höfum nálgast þau meira en var. Það getur allt gerst en vitum einnig að leikirnir verða erfiðir.“
Sjá einnig: Fimm breytingar frá HM hópnum fyrir ári
Yngra barnið til Austurríkis
Rut eignaðist sitt annað barn fyrir ári og var þar af leiðandi ekki með landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Danmörku og í Noregi. Nú fer Rut út og yngra barnið kemur til móts við móður sína í Innsbruck í næstu viku eftir æfingaferðina til Sviss.
„Drengurinn fer út með móður minni og systrum í næstu viku. Þá fæ ég tækifæri til þess að knúsa hann,“ sagði Rut og bætir við að það muni auðvelda sér veruna að hafa barnið nærri en samt í góðri umsjón meðan hún einbeitir sér að þátttökunni á EM.
Í góðum höndum
„Ég veit að hann er í góðum höndum hjá pabba sínum og fjölskyldunni. Við erum mjög heppin með fólk í kringum okkur og ég hef engar áhyggjur,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir landsliðskona í handknattleik.
Lengra myndskeiðsviðatal er við Rut efst í þessari frétt.
- 24 landslið taka þátt í EM kvenna. Þau hafa verið dregin í sex fjögurra liða riðla. Tvö lið halda áfram úr hverjum riðli yfir í milliriðla. Tvö neðstu liðin falla úr leik.
- Riðlakeppnin verður leikin í Debrecen í Ungverjalandi, Basel í Sviss og Innsbruck í Austurríki. Tveir riðlar á hverjum stað.
- Milliriðlar verða leiknir í Debrecen og Vínarborg.
- EM hefst 28. nóvember og lýkur með úrslitaleik 15. desember í Vínarborg.
- Handbolti.is verður vitanlega á EM, án ríkisaðstoðar, og fer utan með blaðamann og ljósmyndara sem fylgja landsliðinu eftir meðan það stendur í ströngu.
A-landslið kvenna – fréttasíða.