Handknattleiksmaðurinn Benedikt Gunnar Óskarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við norska meistaraliðið Kolstad í Þrándheimi. Valur staðfesti þetta í dag í tilkynningu. Orðrómur hefur verið upp um vistaskiptin síðustu vikur og m.a. mun Benedikt Gunnar hafa heimsótt félagið.
Benedikt Gunnar gengur til liðs við Kolstad í sumar. Hann lýkur yfirstandandi keppnistímabili með Val.
Kolstad varð norskur meistarari, deildarmeistari og bikarmeistari á síðustu leiktíð og er um þessar mundir í efsta sæti norsku úrvalsdeildinnar auk þess að vera í góðri stöðu í Meistaradeild Evrópu.
Sigvaldi Björn Guðjónsson er leikmaður Kolstad ásamt mörgum af fremstu handknattleiksmönnum Noregs. Þjálfari Kostad er Christian Berge fyrrverandi landsliðsþjálfari Noregs.
Alla tíð með Val
Benedikt Gunnar hefur leikið með Val upp alla yngri flokki og upp í meistaraflokki. Hann var í Íslandsmeistaraliði félagsins 2021 og 2022. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar árið 2022 og besti sóknarmaður deildarinnar árið 2023. Á þessu tímabili hefur hann spilað 13 leiki og skorað í þeim 63 mörk.
„Benni hefur verið lykilmaður í gríðarsterku Valsliði og verður hans skarð vandfyllt. Við erum hins vegar stolt af því að enn einn efnilegur íþróttamaður frá okkar láti drauma sína rætast í atvinnumennsku og Benna fylgja okkar bestu óskir um áframhaldandi velgengni,“ segir m.a. í tilkynningu Vals í dag.
Arnór Snær Óskarsson, bróðir Benedikts Gunnars, varð leikmaður Rhein-Neckar Löwen á síðasta sumri.