Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður SC Magdeburg í Þýskalandi, segir markmiðið skýrt hjá íslenska landsliðinu fyrir Evrópumótið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, sem hefst í næstu viku.
„Ég veit að þetta er gömul klisja og ég veit ekki einu sinni hvaða lið eru að fara í þennan milliriðil ef svo fer þannig að við erum fyrst og fremst að hugsa um að vinna riðilinn. Við vitum hversu mikilvægt það er að taka með sér þessi stig inn í milliriðilinn og það skiptir öllu máli,“ sagði Elvar við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í Safamýri í gærmorgun.
Þekkja Ungverja vel
Ísland hefur leik í F-riðli í Kristianstad í Svíþjóð með leik gegn Ítalíu föstudaginn 16. janúar. Tveimur dögum síðar mætir liðið Póllandi og loks Ungverjalandi í lokaumferðinni.
„Já, það er alltaf gaman að mæta þeim. Þeir eru sterkir, líkamlega sterkir og klókir. Við höfum reynslu af þeim og þeir hafa reynslu af okkur þannig að þetta verður svolítil skák held ég,“ sagði hann um Ungverja.
„Draumur að spila í Meistaradeildinni og keppa um alla titla“
Vonbrigði Pólverja og Ítalir á uppleið
Pólland átti í vandræðum á HM 2025, komst ekki áfram í milliriðla og fór þar með í keppnina um Forsetabikarinn.
„Pólverjar hafa verið sterkir í gegnum árin, þeir eru með flotta leikmenn. Auðvitað voru vonbrigði hjá þeim í fyrra þannig að þeir mæta dýrvitlausir,“ sagði Elvar Örn og bætti við um Ítali:
„Svo eru Ítalir. Maður veit lítið um þá en veit að þeir eru á uppleið. Það eru margir Ítalir að spila með góðum liðum. Þeir eru að spila í sterkum deildum. Þeir eru mjög góðir og á uppleið sem landslið.“
Reynslumikli refurinn Bob Hanning þjálfar Ítalíu.
„Já, hann er búinn að vera lengi í þessu og kann handbolta. Hann er að gera fína hluti með þetta ítalska lið. Það eru menn frá Ítalíu að spila í þýsku deildinni og þeir eru að standa sig vel þannig að þeir eru stórhættulegir,“ sagði Elvar Örn ennfremur.
F-riðill (Kristianstad Arena, Kristianstad)
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
16. janúar: Ungverjaland – Pólland, kl. 19.30.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
18. janúar: Ítalía – Ungverjaland, kl. 19.30.
20. janúar: Pólland – Ítalía, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.



