Elias Ellefsen á Skipagøtu, stærsta stjarna Færeyja, mun koma til með að vera í minna hlutverki en ella á Evrópumótinu vegna þrálátra axlarmeiðsla sem hafa plagað hann undanfarnar vikur.
Færeyjar leika í D-riðli í Ósló í Noregi ásamt Slóveníu, Svartfjallalandi og Sviss. Ekki er reiknað með því að Elias verði búinn að jafna sig fyllilega á þeim á meðan riðlakeppninni stendur.
Færeyingar hafa áhyggjur af stjörnunni
Verður í besta falli varamaður
„Í besta falli verður Elias „jóker“ í einhverjum af leikjunum þremur í Ósló. Auðvitað er það ekki góðs viti fyrir okkur en handbolti er liðsíþrótt og þegar einn dettur út er nauðsynlegt að aðrir stígi upp. Elias er leiðtoginn í leikjum. Hann spilar venjulega með Óla Mittún.
Pauli Mittún og Rói Ellefsen á Skipagøtu fá núna tækifæri til þess að láta til sín taka í stærri hlutverkum en þeir væru venjulega í,“ hefur færeyski miðillinn Dimmalætting eftir Peter Bredstorff-Larsen landsliðsþjálfara Færeyja.
Annar lykilmaður færeyska landsliðsins í óvissu
Hlaupa bræðurnir í skarðið?
Óli Mittún, annar lykilmaður Færeyja, hefur líkt og Elias verið að glíma við meiðsli. Eymsli í hásin eru að plaga Óla og er óvíst hvort hann verði klár í slaginn þegar Færeyjar hefja leik á Evrópumótinu gegn Sviss á föstudag.
Því gætu bræður þeirra hlaupið í skarðið fyrir lykilmennina tvo. Pauli er eldri bróðir Óla og Rói er yngri bróðir Eliasar.




