- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Vorum bara alls ekki nógu góðir

- Auglýsing -

„Við vorum bara alls ekki nógu góðir. Það segir sig eiginlega sjálft. Byrjunin á báðum hálfleikum var slæm hjá okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið í morgun, daginn eftir 11 marka tap íslenska landsliðsins fyrir þýska landsliðinu í vináttuleik í Nürnberg, 42:31.

13 dauðafæri – 11 tæknifeilar

„Það fóru 13 dauðafæri í súginn, þar af fimm vítaköst, auk þess sem við gerðum 11 tæknifeila. Til viðbótar er ég óhugnanlega ósáttur við hversu slakir við vorum í að hlaupa til baka í vörnina. Þjóðverjar eru gríðarlega sterkir í seinni bylgjunni. Þrátt fyrir að við legðum áherslu á þetta atriði fyrir leikinn þá kom allt fyrir ekki,“ sagði Snorri Steinn sem farið hefur rækilega yfir málin með leikmönnum sínum og mun halda því áfram í dag og á morgun áður en kemur að síðari viðureigninni við Þjóðverja í München á sunnudaginn.

Þessi þrjú atriði

„Þessi þrjú atriði; nýting færa, alltof margir tæknifeilar og hversu slakir við vorum að skila okkur til baka varð til þess að við töpuðum leiknum svo stórt sem raun bar vitni um,“ sagði Snorri Steinn.

Fjaraði undan okkur

Spurður um varnarleikinn sagði Snorri Steinn það vera skoðun sína eftir að hafa séð leikinn aftur að varnarleikurinn hafi ekki verið slæmur í fyrri hálfleik, þegar á annað borð tókst að stilla upp í vörn. „Síðan fjaraði undan okkur í vörninni þegar kom fram í síðari hálfleik.

Margt var hinsvegar í lagi í sóknarleiknum og flest af því sem ég vildi sjá kom fram.“

Snorri Steinn sagði ljóst að menn hafi misst móðinn þegar á leikinn leið, eitthvað sem á ekki að eiga sér stað.

Þjóðverjar tóku Íslendinga í kennslustund í Nürnberg

Vil sjá meiri anda í mönnum

Síðari viðureignin við Þjóðverja fer fram á sunnudaginn og hefst klukkan 16.15.

„Vissulega er margt sem við þurfum að bæta. Það er alltaf þannig eftir hvern leik hvort sem við vinnum eða töpum. Fyrst og síðast þá verðum við bæta það sem ég finnst vera prinsippmál eins og að hlaupa til baka í vörnina. Það er ekki taktískur hlutur. Á heildina vil ég sjá meiri anda í mönnum auk þess sem við höldum okkar striki í taktískum atriðum sóknarleiksins,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari.

Eins og kom fram fyrri í dag meiddist Haukur Þrastarson í leiknum í gær. Í hans stað kemur Andri Már Rúnarsson leikmaður HC Erlangen inn í landsliðshópinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -