ÍBV tyllti sér í efsta sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik í dag með því að vinna stórsigur á Fram, 30:25, í 14. umferð deildarinnar í Vestmannaeyjum. ÍBV fór a.m.k. tímabundið upp fyrir Val sem er þessa stundina að leik við KA/Þór á Akureyri.
Yfirburður ÍBV voru miklir í leiknum því á löngum kafla í síðari hálfleik var forskotið í kringum 10 mörk.
ÍBV tók öll völd í leiknum snemma og gaf ekk þumlung eftir fyrr en á síðustu mínútunum þegar reynsluminni leikmenn fengu tækifæri til þess að spreyta sig. Staðan 17:11 að loknum fyrri hálfleik.
Marta Wawrzykowska átti stórbrotinn leik í marki ÍBV aðra helgina í röð. Hún var með 50% markvörslu þegar upp var staðið. Wawrzykowska stóð vaktina í 50 mínútur. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Birna Berg Haraldsdóttir áttu stórleik í sókninni. Hanna skorað 14 mörk en Birna Berg sjö og virðist óðum vera að nálgast sitt besta form. Hanna hefur leikið frábærlega með ÍBV á síðustu vikum og varla mætt á leikvöllinn fyrir færri en 10 mörk.
Framliðið átti erfitt uppdráttar að þessu sinni. Illa gekk að nýta færin í sókninni auk þess sem varnarleikur og ekki síst markvarslan var ekki eins góð og oft áður. Liðið er í fjórða sæti með 17 stig, er tveimur á eftir Stjörnunni sem á leik til góða við Selfoss á heimavelli síðari í dag.
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 14, Birna Berg Haraldsdóttir 7, Elísa Elíasdóttir 4, Ingibjørg Olsen 1, Ólöf María Stefánsdóttir 1, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1, Ásta Björt Júlíusdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 17.
Mörk Fram: Kristrún Steinþórsdóttir 4, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 3, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Tinna Valgerður Gísladóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2, Madeleine Lindholm 1, Hekla Rún Ámundadóttir 1, Harpa María Friðgeirsdóttir 1, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 8.
Staðan í Olísdeild kvenna.