- Auglýsing -
Norska handknattleikssambandið staðfesti í dag að Jonas Wille hafi verið ráðinn þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik en fregnir þess efnis höfðu spurst út á dögunum. Wille tekur við starfinu af Christian Berge sem stýrði landsliðinu í átta ár en lét af því í byrjun apríl til þess að verða þjálfari væntanlegs stórliðs Kolstad í Þrándheimi.
Wille er samningsbundinn norska handknattleikssambandinu næstu fjögur ár, eða fram yfir mitt árið 2026. Wille var síðast þjálfari sænska liðsins Kristianstad sem þar með er komið í þjálfaraleit á nýjan leik en talsvert los hefur verið þjálfurum hjá félaginu síðustu árin. Wille var t.d. ráðinn fyrir ári.
Í haust sem leið var Wille ráðinn aðstoðarmaður Berge samhliða starfinu hjá Kristianstad. Hann þekkir því vel herbúðir landsliðsins. Áður hefur kappinn m.a. verið félagsþjálfari hjá Mors-Thy og HC Midtjylland i Danmörku, hjá IFK Skövde í Svþjóð og hjá Halden, Fjellhammer og Stabæk í Noregi.
Fyrsti leikur norska landsliðsins undir stjórn Wille verður gegn Slóvenum á heimavelli í október í undankeppni Evrópumótsins sem þá hefst. Nokkrum dögum síðar sækir norska landsliðið það finnska heima í sömu keppni.
- Auglýsing -