- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Wolff er orðinn leikmaður THW Kiel

Andreas Wolff landsliðsmarkvörður þýska landsliðsins og nú leikmaður THW Kiel. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Þýska stórliðið THW Kiel staðfesti eftir hádegið að gengið hafi verið frá kaupum á þýska landsliðsmarkverðinum Andreas Wolff frá pólska liðinu Industria Kielce. Endalausar fregnir hafa verið í þýskum fjölmiðlum síðustu mánuði um endurkomu markvarðarins í þýska handknattleikinn. Lengi vel var Wolff orðaður við meistarana SC Magdeburg en síðustu vikur sterklega orðaður við THW Kiel. Fyrir rúmri viku fullyrti fréttastofan NDR að kaupin væru um garð gengin. Forráðamenn THW Kiel neituðu þeirri fregn.

Fjögurra ára samningur

Ekki kemur fram hvað THW Kiel greiðir fyrir Wolff sem var samningsbundinn pólska liðinu til næstu fjögurra ára né hvort einhver markvarða Kiel gengur til liðs við Kielce sem hluti kaupverðsins. Vangaveltur þess efnis voru í fregn NDR á dögunum. Vitað er að samningur Wolff til THW Kiel er til næstu fjögurra ára en Wolff er 33 ára gamall.

Þekkir vel til

Wolf þekkir vel til í herbúðum THW Kiel. Hann lék með liði félagsins frá 2016 til 2019 en gekk þá til liðs við Industria Kielce. Einnig hefur Wolff leikið með TV Großwallstadt og HSG Wetzlar. Landsleikirnir eru 158 og má segja að hann hafi nær einokað markvaraðastöðuna í þýska landsliðinu síðustu átta ár, allt síðan þýska landsliðið varð Evrópumeistari 2016 undir stjórn Dags Sigurðssonar.

Vann ekkert í vetur

THW Kiel er sigursælasta handknattleikslið Þýskalands í karlaflokki. Liðið vann ekki til verðlauna á síðustu leiktíð og varð af sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Með komu Wolff vonast stjórnendur félagsins til þess að árangur liðsins verði betri á næsta keppnistímabili.

Veikir Kielce

Hætt er við að pólska liðið Industria Kielce veikist við brotthvarf Wolff og má þó vart við því í harðri samkeppni við Wisla Plock sem varð pólskur meistari í vor í fyrsta sinn í 13 ár. Sem kunnugt er gekk Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður til liðs við Wisla Plock í síðasta mánuði.

Ofan á annað hefur fjárhagur Industria Kielce á tíðum verið veikur og blasti gjaldþrot við snemma árs í fyrra. Með góðra manna hjálp tókst að bjarga félaginu fyrir horn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -