- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Yndislegt að spila heima á nýjan leik

Haukur Þrastarson laumar boltanum til Arnars Freys Arnarssonar í leiknum í gærkvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það var yndislegt að fá tækifæri til þess að spila heima á nýja leik eftir langa fjarveru,“ sagði Haukur Þrastarson sem lék með landsliðinu á nýjan leik í gærkvöld eftir meira en árs fjarveru vegna erfiðra meiðsla. Haukur lék afar vel í sigurleiknum við Færeyinga í gær, 39:24 í Laugardalshöll, og yljaði fjölmörgum áhorfendum með fjölbreyttri skottækni sinni og útsjónarsömum leik.

Var markmiðið

„Ég stefndi á að vera með landsliðinu í þessu verkefni um leið og það lá fyrir. Það hvatti mig áfram við endurhæfinguna á fyrri hluta ársins að hafa það eitt af markmiðunum að komast í landsliðið sem fyrst aftur,“ sagði Haukur ennfremur sem lét slag standa í leiknum og var alls óhræddur.

„Það er enginn skrekkur í mér. Mér líður orðið vel á vellinum enda hef ég fengið góðan tíma með mínu félagsliði til þess að koma jafnt og þétt til leiks á nýja leik,“ sagði Haukur sem sleit krossband öðru sinni á ferlinum í byrjun desember á síðasta ári.

Verðum að vera fljótir

Haukur sagðist vera ánægður með þær breytingar sem Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari leggur upp með, þ.e. að auka hraðann í sókninni.

„Við verðum bara að vera fljótir að tileinka okkur nýjar áherslur,“ sagði Haukur Þrastarson sem skoraði þrjú mörk í leiknum, þar af eitt með sínum vel þekktu undirhandarskotum.

Haukur verður væntanlega aftur á ferðinni með íslenska landsliðinu í dag þegar það mætir færeyska landsliðinu öðru sinni í Laugardalshöll. Flautað verður til leiks klukkan 17.30.

Miðasala á leikina er hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -