Einn þekktasti handknattleiksmaður Þýskalands Hansi Schmidt lést aðfaranótt sunnudagsins á áttugasta aldursári. Hansi Schmidt var þekktasti handknattleiksmaður í Evrópu á síðari hluta sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hann var frábær skytta og þótti einnig harður í horn að taka í vörninni.
Schmidt flúði 21 árs gamall til Þýskalands frá Rúmeníu þegar lið hans Steaua Búkarest var í æfingaferð. Þá hafði hann leikið 18 landsleiki fyrir Rúmeníu.
Alls skoraði Schmidt 484 mörk í 98 landsleikjum fyrir Þýskaland og alls 1.404 mörk í 226 leikjum í þýsku 1. deildinni og í Evrópukeppni fyrir Gummersbach sem var hans lið eftir að hann settist að í Þýskalandi.
Sigmundur Ó. Steinarsson blaðamaður brá upp mynd af Hansa Schmidt í grein um Geir Hallsteinsson á handbolti.is í febrúar á síðasta ári. Kaflinn um Hansa Schmidt birtist hér fyrir neðan.
Hver er Hansi Schmidt?
Það er rétt að rifja upp fyrir lesendum hver Hans-Günther Schmidt er. Hann er tvímælalaust einn besti handknattleiksmaður í sögu þýsku „Bundesligunnar.“
Hansi fæddist í Rúmeníu 24. september 1942, varð meistari með liði hersins, Steaua Búkarest, 1963. Þegar hann var í keppnisferð með landsliði Rúmeníu í Þýskalandi, þar sem liðið tók þátt í fjögurra liða móti í Dortmund, lét hann sig hverfa. Það vakti geysilega athygli, þar sem Hansi sem var 21 árs og talinn einn efnilegasti handknattleiksmaður heims.
Eins og jörðin hefði gleypt hann
Sá sem skipulagði flóttann var „faðir Gummersbach“ Eugen Haas. Þegar í ljós kom að einn leikmann (Hansi) vantaði í hópinn, varð uppi mikil örvænting; menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Fararstjórar leituðu til lögreglunnar og þrátt fyrir umfangsmikla leit sást hvorki tangur né tetur af strák. Var eins og jörðin hefði gleypt hann. Þegar leitin stóð sem hæst í Dortmund, var Hans í góðu yfirlæti á hóteli í Hamborg. Með honum var Haas, ásamt tveimur stjórnarmönnum Gummersbach, en þeir höfðu beðið átekta í bifreið fyrir utan hótel í Dortmund, tilbúnir að koma Hansa undan og fara með hann til Hamborgar. Hansi hafði sett sig í samband við Eugen Haas í gegnum einn leikmann Gummersbach sem lék með vestur þýska landsliðinu.
Þegar Rúmenarnir yfirgáfu Vestur-Þýskaland, beið Hansi ekki boðanna og fór á næstu lögreglustöð og baðst hælis sem pólitískur flóttamaður.
Dæmdur til dauða
Þar sem hann var meðlimur hersins var hann dæmdur til dauða í Rúmeníu fyrir liðhlaup.
Þremur árum eftir að Hansi kom til Gummersbach varð félagið vestur-þýskur meistari í fyrsta skipti í sögunni, 1966. Með Hansa innanborðs var Gummersbach eitt besta lið sögunnar.
Hansi varð sjö sinnum V-Þýskalandsmeistari á árunum 1966-1976, fjórum sinnum Evrópumeistari. Hann varð sjö sinnum markahæsti leikmaðurinn í „Bundesligunni“ – norðurdeild; skoraði 1.066 mörk í 173 leikjum. Hann lék 18 landsleiki fyrir Rúmeníu, en 98 leiki fyrir V-Þýskaland; skoraði 484 mörk.
Æsti upp Hafnfirðinga
Hansi Schmidt (1,94 m) kom nokkrum sinnum til Íslands með þýska landsliðinu og Gummersbach. Hann var óviðráðanlegur í landsleik í Laugardalshöllinni 1966, er hann skoraði 9 mörk í stórsigri Þjóðverja, 26:19. Varnarmenn Íslands voru eins og smábörn í höndum Hansa. Geir Hallsteinsson skoraði tvö mörk.
Gummersbach kom til Íslands í lok mars 1969 á leið sinni í keppnisferð til Bandaríkjanna og Kanada. Liðið lék gegn Reykjavíkurúrvali, 19:12, og síðan gegn Hafnarfjarðarúrvali, 18:15. Leikurinn gegn Hafnarfjarðarúrvali var sögulegur vegna þess að Þjóðverjarnir höguðu sér dólgslega í leiknum og léku ruddalega.
Sterkur sem naut
Dagblaðið Tíminn sagði að potturinn og pannan í leik og ólátum liðsins var risinn Hans Schmidt, einn allra besti handknattleiksmaður sem sést hefur á fjölum Laugardalshallarinnar.
„Sterkur sem naut, en engu að síður fisléttur, virtust honum allir vegir færir. Hann virtist geta skorað hvenær sem hann vildi. Auk þess átti hann glæsilegar línusendingar. En hvernig hann barði á hafnfirsku leikmönnunum var ljótt að sjá og framkoma hans í garð dómara var ekki til fyrirmyndar. En allan tímann hafði maður það á tilfinningunni, að þetta væri fyrirfram ákveðið og gert í ákveðnum tilgangi – til að reita mótherjann til reiði. Það tókst honum líka. Þarna var yfirburðarmaður á ferð, ósvífinn að vísu, en nálgaðist að vera skemmtilega ósvífinn af því að það var svo greinilegt, að ósvífnin var tilbúningur og tæki til að brjóta mótherjana niður andlega – og ekki síður líkamlega,“ skrifaði Alfreð Þorsteinsson, íþróttafréttamaður.
Schmidt sagði eftir leikinn að þessi framkoma hafi verið með ráðum gerð; til að æsa upp mótherjana, því að æstir menn gera marga feila. „Þar með er ekki hægt að segja að þetta sé skemmtileg „taktík“, sagði Schmidt og hló.