- Auglýsing -
- Auglýsing -

60 ár í dag síðan Svíar voru lagðir í fyrsta skipti

Sigurliðið fræga gegn Svíum í Bratislava 1964, 12:10. Mörk leikmanna innan sviga. Aftari röð frá vinstri: Ragnar Jónsson, fyrirliði, Einar Sigurðsson, Hörður Kristinsson (3), Gunnlaugur Hjálmarsson 3/2), Ingólfur Óskarsson (5), Birgir Björnsson og Karl G. Benediktsson, þjálfari. Fremri röð: Guðjón Jónsson, Örn Hallsteinsson (1), Hjalti Einarsson, Guðmundur Gústafsson, Karl Jóhannsson og Sigurður Einarsson. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.
- Auglýsing -

Í dag, 7. mars 2024, eru 60 ár liðin síðan karlandslið Íslands vann sænska landsliðið í fyrsta sinn. Sigurinn vannst á heimsmeistaramótinu í Tékkóslóvakíu, 12:10. Í tilefni dagsins endurbirtir handbolti.is grein Sigmundar Ó. Steinarssonar blaðamanns frá síðasa ári þegar hann rifjaði upp sigurleikinn í Bratislava rétt áður en landslið Svíþjóðar og Íslands mættust á HM 2023 í Gautaborg.
Aðeins fyrirsögninni hefur verið breytt frá birtingu greinarinnar 20. janúar 2023.

Pislahöfundur hefur alltaf haft mikla skemmtun af ævintýrum og þá sérstaklega þegar þau eru ný og koma óvænt upp. Ég gleymi aldrei ævintýrinu á Fullveldisdaginn 1. desember 1996 í Álaborg í Danmörku, þegar Danir voru lagðir að velli 24:22 og Ísland tryggði sér sæti á HM í Kumamoto í Japan 1997 á kostnað Dana. Pistlahöfundur var í Álaborg og einnig í Kumamoto, þar sem landsliðsmenn Íslands héldu áfram að skrifa HM-ævintýri. 

Sigurliðið fræga gegn Svíum í Bratislava 1964, 12:10. Mörk leikmanna innan sviga. Aftari röð frá vinstri: Ragnar Jónsson, fyrirliði, Einar Sigurðsson, Hörður Kristinsson (3), Gunnlaugur Hjálmarsson 3/2), Ingólfur Óskarsson (5), Birgir Björnsson og Karl G. Benediktsson, þjálfari. Fremri röð: Guðjón Jónsson, Örn Hallsteinsson (1), Hjalti Einarsson, Guðmundur Gústafsson, Karl Jóhannsson og Sigurður Einarsson. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

Ég var aftur á móti ekki í Bratislava 1964 þegar Ísland vann einn sinn fræknasta sigur á handknattleiksvellinum; geysilega öflugt lið Svía var lagt að velli, 12:10. Íslendingar fögnuðu eina sigrinum í sex leikjum sínum gegn Svíum á HM. Verður nýtt ævintýri fest á blað í Gautaborg í kvöld, borginni sem er hinu megin við Kattegat; á móti Álaborg. Kemur draumurinn til með að rætast þar; Sveitapiltsins draumur! Það er ekki öll nótt úti – ég hef trú á því að góðir straumar koma yfir sjávarflötinn á Kattegat frá Álaborg til Gautaborgar; vestan vindur!

 Það er nú mikill þrýstingur á ungu og stórefnilegu landsliði Íslands. Þegar ævintýrið gerðist í Bratislava var engin þrýstingur frá almenningi. Strákarnir gátu undirbúið sig við leikinn gegn Svíum, án þess að vera stöðugt í sviðsljósinu í fjölmiðlum og á milli tannana á fólki heima og að heiman.

 Sjónvarp og beinar útsendingar þekktust þá ekki á Íslandi og víða, þannig að það var ekkert um HM í Tékkóslóvakíu í Ríkisútvarpinu laugardaginn 7. mars, þegar leikur Íslands og Svíþjóðar hófst og fór fram kl. 17.30.

 Eftir danskennslu Heiðars Ástvaldssonar í útvarpinu voru dagskráliðið þessir hjá RÚV:

 17.05 Þetta vil ég heyra: — María Maack forstöðukona velur sér plötur.

 18.00 Útvarpssaga barnanna: Landnemar.

 18.30 Tómstundaþáttur barna og unglinga (Jón Pálsson).

 Það var ekki fyrr en kl. 8.55 á sunnudagsmorgni 8. mars að fréttir voru í útvarpi: „Fréttir og útdráttur úr forustugreinum dagblaðanna!“

 Þeir sem vöknuðu ekki svo snemma á frídeginum – héldu hann hátíðlegan undir sæng fram eftir morgni, urðu að bíða eftir fréttum frá sigurleiknum á Svíum þar til kl. 12.15, að Hádegisfréttir voru lesnar, eða 18,30 tímum eftir að leiknum í Bratislava lauk. Þá var ekki boðið upp á „sérfræðinga“ í setti strax eftir að leik var flautað af, eins og nú. 

 Ég vel frekar Loga, Dag, Ólaf og Ásgeir í settinu, heldur en að hlusta á „Þetta vil ég heyra“ með Maríu.

 Ég ætla ekki að stöðva lengur við dagskrá RÚV; 59 árum síðar, heldur skulum við skoða undirbúning íslenska landsliðsins undir stjórn Karls G. Benediktssonar, landsliðsþjálfara, fyrir leikinn gegn Svíum 7. mars 1964 í Bratislava.

 Karl Ben tók við landsliðinu

 Þegar Karl kom heim frá Danmörku 1960, þar sem hann kynnti sér handknattleiksþjálfun í Vejle á Jótlandi, varð algjör bylting í handknattleik á Íslandi. Karl er faðir nútímahandknattleiksins á Íslandi. Kom með nýjar hugmyndir, sem áttu eftir að gjörbreyta handknattleiknum á Íslandi og má segja að nútímahandknattleikur hafi þá hafist á Íslandi. Karl lét lið sín leika kerfisbundinn handknattleik. Hann lét menn leika í föstum stöðum og tímasetningar voru í leiknum. Þegar hann kom með sínar hugmyndir og fylgdi þeim fast eftir, varð bylting í íslenskum handknattleik –  fyrst með Framliðið og síðan með landsliðið. Karl hugsaði fyrst og fremst um liðsheildina; Einn fyrir alla, allir fyrir einn!

 Karl vildi að einstaklingshyggjan myndi víkja fyrir kerfisbundnum leik.

 Stór verkefni voru framundan þegar Karl var ráðinn sem landsliðsþjálfari; að undirbúa landsliðið fyrir heimsmeistarakeppnina í Tékkóslóvakíu 1964, en landslið Ísland þurfti ekki að fara í forkeppni til að komast þangað, þar sem liðið náði sjötta sætinu í HM í Vestur-Þýskalandi 1961.

Karl G. Benediktsson, landsliðsþjálfari, fékk flugferð eftir sigurleikinn á Svíum. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 22 leikmenn valdir til æfinga

 Karl, fyrirliði landsliðsins og formaður tækninefndar HSÍ, var þjálfari ungmennalandsliðsins er hann var ráðinn sem landsliðsþjálfari september 1963. Landsliðsnefndin, Frímann Gunnlaugsson, formaður, KR, Sigurður Jónsson, Víkingi og Bjarni Björnsson, FH, valdi ásamt Karli 22 manna landsliðshóp til æfinga í september og voru æfingar einu sinni í viku í KR-heimilinu eða í íþróttahúsinu á Keflavíkurflugvelli, sem var með eina löglega keppnisvöll landsins.

 Hópurinn var skipaður þessum leikmönnum:

 FH: Hjalti Einarsson, markvörður, Birgir Björnsson, Kristján Stefánsson, Einar Sigurðsson, Ragnar Jónsson og Örn Hallsteinsson.

 Fram: Ingólfur Óskarsson og Sigurður Einarsson.

 Víkingur: Brynjar Bragason, markvörður, Rósmundur Jónsson og Sigurður Hauksson.

 Ármann: Árni Samúelsson, Þorsteinn Björnsson, markvörður, Hörður Kristinsson og Lúðvík Lúðvíksson.

 KR: Karl Jóhannsson, Sigurður Johnny Þórðarson, markvörður, og Heinz Steinmann.

 Valur: Sigurður Dagsson.

 Haukar: Viðar Símonarson.

 ÍR: Gunnlaugur Hjálmarsson.

 Karl sagði starfi sínu lausu!

 Illa var mætt á landsliðsæfingar – tvær æfingar í viku, önnur á Keflavíkurflugvelli, og einnig æfingar með félagsliðum. Stór hluti frítíma leikmanna fóru í æfingar. Leikmenn voru ekki tilbúnir að fórna fjölskyldulífi sínu. Þá var ljóst vegna fjárhagsörðugleika að ekki væri farið með fullmannað lið til HM í Tékkóslóvakíu og nokkrir leikmenn voru því ekki tilbúnir að fórna miklu í marga mánuði, ef þeir ættu ekki mikla möguleika á að komast á HM. Það var vel skiljanlegt.

 Handknattleiksmenn fengu þá ekkert greitt fyrir mikla vinnu í sambandi við landsliðið þá, frekar en nú til dags. Þeir þurftu á þessum árum að greiða með sér þegar farið var á stórmót. Þeir léku með landsliðinu, fyrir heiðurinn og hafa alltaf gert. Á sama tíma og leikmenn hafa ekki tekið krónu fyrir, er t.d. kvennalandsliðið í knattspyrnu að fá tugi milljóna króna í bónus fyrir að leggja mótherja að velli, sem kunna lítið, með allt að tveggja stafa tölu. „Strákarnir okkar“ hafa litið á það sem herskyldu að vera kallaðir til að leika undir merki Íslands! Þeir hafa svarað kallinu, án þess að setja fram jafnaðarkröfur!

 Um þetta sköpuðust oft umræður á árum áður, að það væri kominn tími til að handknattleiksmenn væru við sama borð og knattspyrnumenn og frjálsíþróttamenn, að þeir ættu ekki að taka þátt í ferðakostnaði og greiða úr eigin vasa, þegar keppt væri fyrir hönd Íslands. Þeir yrðu að fá að njóta sömu hlunninda og aðrir íþróttamenn

 Karl sagði upp starfi sínu um miðjan nóvember, eða tveimur mánuðum eftir að landsliðsmenn voru kallaðir til æfinga og fjórum mánuðum fyrir HM í Tékkóslóvakíu. Karl taldi ástæðulaust að halda áfram, ef leikmenn mættu ekki á æfingar.

 Frímann, formaður landsliðsnefndar, ræddi við Karl, sem féllst á að reyna að halda áfram. Sjá til hvort að leikmenn taki við sér.

 Í viðtali við Tímann 22. nóvember sagði Karl að fimm til tólf menn hafi mætt á æfingar. „Æfingar með svo fáum leikmönnum þjóna engum tilgangi.“

 Karl sagði í viðtali 22. desember að æfingasókn hafi lagast lítillega frá því áður var. „Nú mæta að jafnaði 14-16 leikmenn.“

 Það urðu breytingar á æfingahópnum. Sigurður Dagsson varð að draga sig úr hópnum vegna meiðsla og þá bættust í hópinn Guðjón Jónsson, Fram, Þórarinn Ólafsson, Víkingi, Sigurður Óskarsson, KR, Páll Eiríksson, FH og Guðmundur Gústafsson, markvörður, Þrótti.

 2 landsleikir í þrjú ár!

 Danir og Svisslendingar vildu fá vináttulandsleiki við Íslendinga á leið þeirra á HM, en það var erfitt að koma þeim leikjum fyrir. Danir voru búnir að ákveða leikstað; Kalundborg á Sjálandi.

 Þegar ljóst var að Bandaríkjamenn léku á HM, var haft samband við þá og þeim boðið að leika hér tvo landsleiki, 22. og 23. febrúar. Ásbjörn Sigurjónsson, formaður HSÍ, skaust til New York til að ganga frá boðinu. Hér var um að ræða fyrstu landsleikina innanhúss á Íslandi. Mikill áhugi var fyrir leikjunum, sem fóru fram í íþróttahúsi bandaríska varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli; í sal sem var með löglegri stærð á keppnisvelli. Landsliðið hafði æft í húsinu frá því í september.

Landsliðið sem lék fyrsta landsleikinn innanhúss á Íslandi; gegn Bandaríkjamönnum á Keflavíkurflugvelli 22. febrúar 1964, 32:16. Mörkin í leiknum innan sviga. Birgir Björnsson (5), Sigurður Einarsson (6), Karl Jóhannsson (3), Guðjón Jónsson (1), Einar Sigurðsson (1), Gunnlaugur Hjálmarsson, Ingólfur Óskarsson (6), Hörður Kristinsson (4), Guðmundur Gústafsson, Hjalti Einarsson og Ragnar Jónsson (6), fyrirliði. Áður hafði Ísland leikið úti gegn Finnum 1950, 3:3, á Melavellinum. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Landsliðsmenn og félagar þeirra tóku að sér að smíða áhorfendabekki í húsið, þannig að áhorfendur myndu njóta leikjanna betur.

 Miðar á leikina voru seldir í bókabúðum Lárusar Blöndal í Vesturveri og á Skólavörðustíg í Reykjavík, Hjólinu í Hafnarfirði og Fons í Keflavík, og þá fengu varnarliðsmenn ákveðin fjölda miða til umráða. Miðar á leikina seldust upp á svipstundu þriðjudaginn 18. febrúar.

 Lúðrasveit bandaríska sjóhersins lék þjóðsöngva þjóðanna fyrir leikina. Góð stemning var á hersvæðinu!

 Það voru langt um liðið síðan Ísland hafði leikið landsleik í handknattleik, frá því á HM í Vestur-Þýskalandi í mars 1961. Ísland hafði aðeins leikið tvo leiki frá HM; gegn Frakklandi og Spáni í febrúar 1963. Já, aðeins tvo landsleiki á þremur árum!

 Fyrir leikina gegn Bandaríkjunum hitaði landsliðið upp á Keflavíkurvelli með því að leggja „pressuliðið“ að velli, 35:19!

 Ísland lagði Bandaríkin örugglega að velli í báðum landsleikjunum, 32:16 og 32:14.  

 Danski dómarinn Knud Knudsen dæmdi leikina og hélt dómaranámskeið í Reykjavík. Hann sagði að landslið Íslands væri eitt af átta bestu landsliðum Evrópu.

 Farið með 12 leikmenn til Bratislava

 Ákveðið var að fara með 12 leikmenn á HM í Tékkóslóvakíu og var Karl, þjálfari, tilbúinn að hlaupa í skarðið sem þrettándi leikmaður, ef með þyrfti. Íslenska liðið lék í riðli með Egyptalandi, Svíþjóð og Ungverjalandi, sem fór fram í Bratislava á Dónárbökkum. Leikmennirnir tólf, sem kynntir voru til leiks 9. janúar, voru:

 FH: Hjalti, markvörður, Einar, Birgir, Ragnar, fyrirliði og Örn.

 Fram: Ingólfur, Guðjón og Sigurður.

 Ármann: Hörður.

 KR: Karl Jóhannsson.

 ÍR: Gunnlaugur.

 Þróttur: Guðmundur, markvörður.

 Fararstjórnin til Tékkóslóvakíu, var: Ásbjörn Sigurjónsson, formaður HSÍ, Björn Ólafsson, gjaldkeri HSÍ, Jóhann Einvarðsson, formaður HKRR og Frímann Gunnlaugsson, formaður landsliðsnefndar.

 Hver leikmaður var búinn að samþykkja að greiða sjálfir kr. 3.000 upp í væntanlegan kostnað.

 Benedikt mældi þrekið

 Lokaundirbúningurinn var níu æfingar á Keflavíkurflugvelli og þrekæfingar og hlaup úti eftir plani sem Benedikt Jakobsson setti upp. Benedikt sá um að mæla þrek landsliðsmanna og var meðalþrek þeirra 60 stig, en það þótti gott ef handknattleiksmenn náðu 55 stigum.

Farið á fyrstu æfinguna í Bratislava. Sigurður Einarsson, Hörður Kristinsson, Birgir Björnsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Ásbjörn Sigurjónsson frá Álafossi, Einar Sigurðsson og Guðjón Jónsson. Þeir eru að sjálfsögðu með gulu Álafosstreflana um hálsinn. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

  21 tímar í lest af 32 tíma ferðalagi 

 Ferð íslenska landsliðsins til Tékkóslóvakíu var erfið og stóð hún yfir í 32 klukkustundir. Farið var frá Íslandi sunnudagsmorguninn 1, mars með Snorra Sturlusyni, flugvél Loftleiða og var flogið til Kaupmannahafnar með millilendingum í Ósló og Gautaborg. Þegar komið var til Kastrup-flugvallar í kóngsins Köben, fór landsliðshópurinn með rútu til lestarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn. Þaðan var farið með næturlest til Prag og tók ferðin 21 klukkustund og þurftu landsliðsmennirnir að standa fyrstu fimm klukkustundirnar á lestarferðalagi sínu, þar sem ekkert sæti var að fá. Frá Kaupmannahöfn var haldið til Gedser á Falster og þaðan með ferju yfir til Warnemünde og síðan lá leiðin til Rostock, Berlínar, Leipzig, Dresden og Prag. Stöðvað var í mörgum smáþorpum á þessari leið. Ferðin gekk seint í gegnum Austur-Þýskaland, þar sem járnbrautakerfið var í rúst. Rússar tóku stóran hluta af járnbrautateinum með sér til Sovétríkjanna eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk.

 Ásbjörn Sigurjónsson, formaður HSÍ og aðalfararstjóri, var potturinn og pannan í öllum léttleika innan landsliðshópsins og skipaði hann ýmsar leikmannanefndir. Hjalti, sem mætti að sjálfsögðu með gítarinn sinn, var formaður „Söngnefndar“ sem hafði nóg að gera í hinni löngu lestarferð; bæði að stytta sér stundir og um leið að halda fyrir öðrum vöku. Aðal forsöngvarar voru Ragnar og Gunnlaugur, sem höfðu munninn á réttum stað!

 Svalt var í lestinni, þannig að landsliðsmenn flögguðu „einkennisbúningi“ sínum; gulum hálstreflum frá Álafossi, sem Ásbjörn lét gera sérstaklega fyrir ferðina.

 Menn frá tékkneska handknattleikssambandinu tóku á móti íslenska hópnum í Prag að kvöldi dags 2. mars, þar sem hópurinn gisti eina nótt áður en haldið var í flugi til Bratislava upp úr hádegi daginn eftir. Eftir erfitt ferðalag, sem margir gátu ekki sofið; í flugi, rútu, lest og ferju.

 Til móts við landsliðshópinn kom í Prag, námsmaðurinn Helgi Haraldsson, sem hafði verið við nám í Prag í fimm ár. Hann var túlkur íslenska hópsins og alltaf til staðar.

 Fengu magakveisu!

 Þegar landsliðið kom til Bratislava var farið á veitingahús og sest að snæðingi. Landsliðsmennirnir settu ofan í sig einhvern óþverra. Allir nema tveir fengu magakveisu. Ástæðan fyrir því að þessi veitingastaður var valinn, en ekki borðað á glæsilegu hóteli landsliðsins, Carlton, var að Tékkar tóku ekki formlega á móti landsliðum á HM fyrr en 4. mars. Til að spara peninga, sem voru af skornum skammti hjá HSÍ, var farið á næsta veitingastað við hótelið, sem bauð upp á ódýrari mat.

 Leikmenn Íslands nýttu tímann fram að fyrsta leik sínum – gegn Egyptum 6. mars, til að jafna sig eftir erfiða ferð, safna kröftum og bregða sér á æfingar í glæsilegri íþróttahöll. „Snyrtinefnd leikmanna“ sem var skipuð nýliðunum Sigurði, Herði og Guðmundi sáu til að eldri leikmenn hefðu nauðsynlegar snyrtivörur á herbergjum sínum og í keppnistösku.

Gunnlaugur Hjálmarsson og Ingólfur Óskarsson fagna sækum sigri á Svíum. Þeir voru bæði saman innan sem utan vallar. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Létt gegn Egyptum

 Íslendingar lögðu Egypta auðveldlega að velli í fyrsta leiknum, 16:8. Þeir náðu sér þó ekki á strik, voru spenntir og óöryggir og hafði allt verið eðlilegt, hefðu Íslendingar átt að vinna með 12-15 marka mun. Mörkin skoruðu Gunnlaugur 4, Ragnar 4, Örn 3, Sigurður 3, Hörður 1 og Karl Jóhannsson 1.

 * Gunnlaugur var sagður bestur; sterkur í vörn, skotviss og þá átti hann margar stoðsendingar, sem Egyptar réðu ekki við. Ragnar fékk einnig góða dóma.

 * Daginn eftir leikinn gegn Egyptum, laugardaginn 7. mars, var landsliðshópnum boðið á knattspyrnuvöllinn, til að horfa á Evrópuleik Slovan og Celtic frá Skotlandi, 0:1.

 Rúlletta“ og Ingólfur; Leynivopn!

 Svíar voru næstu mótherjar Íslendinga og reiknuðu flestir með öruggum sigri Svía, sem voru með eitt besta landslið heims; tvöfaldir heimsmeistarar; 1954 og 1958 og bronshafar 1961. Leikur Íslendinga gegn Svíum var mjög vel skipulagður og fögnuðu Íslendingar mjög óvæntum sigri, 12:10.

 Karl, landsliðsþjálfari, ákvað að hvíla Ingólf í leiknum gegn Egyptum – hann átti að vera leynivopnið með sín hættulegu gólfskot, sem Svíar þekktu ekki, enda höfðu þeir aldrei séð Ingólf leika. Þá lumaði Karl á enn einu leynivopninu – leikaðferð, sem kölluð var rúlletan. Íslensku leikmennirnir komu mjög yfirvegaðir til leiks og léku yfirvegaða leikaðferð, sem skipti á rólegum leik og hröðum upphlaupum, sem ruglaði Svía gjörsamlega í ríminu. Þeir höfðu kortlagt íslenska liðið rækilega og lögðu áherslu á að hafa gætur á Gunnlaugi og Ragnari. Þar með gerðu Svíar óviljandi mistök, því að Ingólfur, sem þeir þekktu ekki, fékk aukið svigrúm til að athafna sig. Leikurinn varð mikill spennuleikur og voru rúmlega 3.000 áhorfendur vel með á nótunum og hvöttu Íslendinga óspart. Mesta spennan var þegar Íslendingar náðu að verjast Svíum er þeir léku fjórir gegn sex, eftir að Gunnlaugur og Ingólfur voru reknir af leikvelli með nokkra sekúndna millibili í stöðunni 8:6 og síðan var Gunnlaugur rekinn af leikvelli í 5 mín. í stöðunni 11:9.

Fögnuður! Frímann Gunnlaugsson, Karl G. Benediktsson, Sigurður Einarsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Ásbjörn Sigurjónsson og Ingólfur Óskarsson. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Svíaleikurinn í tölum

  Skoðum aðeins gang leiksins: 1:0 og 2:0 Örn og Hörður (2 mín.), 2:1, 3:1 Ingólfur, 4:1 Gunnlaugur, vítakast (6 mín.), 4:2, 5:2 Hörður (12 mín.), 5:3, 6:3 Ingólfur, 6:4, 7:4 Ingólfur, 7:5. HÁLFLEIKUR. 7:6, 8:6 Gunnlaugur vítakast. * Ingólfur og Gunnlaugur reknir af leikvelli í 2. mín. 8:7, 9:7 Ingólfur, 9:8 (14 mín.), 10:8 Ingólfur, 11:8 Gunnlaugur, 11:9. * Gunnlaugur rekinn af leikvelli í 5 mín., 11:10, 12:10 Hörður.

 Mörk Ísland: Ingólfur 5, Gunnlaugur 3/2, Hörður 3, Örn 1.

 Liðsheildin réði úrslitum og ekki má þó gleyma stórleik Hjalta í markinu. Tékknesku blöðin voru mjög hrifin af leik íslenska liðsins og sagði Pravda í fyrirsögn; „Íslendingar stóðu Svíum framar í tækni!“

 Svíar reiknuðu ekki með Ingólfi

 Sænska blaðið Idrottsbladet sagði að það hafi ekki verið skömm að tapa fyrir Íslendingum, eins og þeir léku í Bratislava. Það kom fram í blaðinu að Ingólfur hafi verið það leynivopn sem Svíar reiknuðu ekki með og svo frábær markvarsla Hjalta, en blaðið benti á nokkrar ástæður fyrir tapinu:

 „1): Hinn frábæra markvörð, sem alltaf hafði annaðhvort fót eða hönd á knettinum.

 2): Sænsku langskytturnar sex brugðust.

 3): Fram kom hinn skotharði Óskarsson, sem Svíar höfðu enga hugmynd um. Íslendingar tefldu honum ekki fram gegn Egyptum, auðvitað til að Svíar skyldu ekki „uppgötva“ hann. Þessi skytta var heldur ekki sjáanlegur sl. sumar þegar Ronald Mattson, fyrrum landsliðsmarkvörður Svía, þjálfaði íslenska handknattleiksmenn í tvær vikur.“

 Þess má hér geta, að Ingólfur var að vinna úti á landi þegar Mattson þjálfaði á Íslandi.“

 Ingólfur sagði að „rúllettan“ hafi boðið upp á margar útfærslur, til að riðla vörnum andstæðinganna, en leikaðferðin var byggð upp á miklum hreyfanleika hornamanna og línumanna. „Við náðum að mynda glufur í vörn Svía. Ef varnarmenn fóru að fylgja hornamönnum eftir, þá riðlaðist varnarleikurinn og fengu skyttur okkar þá smugur til að nýta sér. 

 Það segir ekki alla söguna þó að ég hafi skorað fimm mörk. Allir í liðinu léku mjög vel. Hjalti var stórkostlegur í markinu og Ragnar alltaf á ferðinni til að riðla vörn Svía. Við settum Svía út af laginu með hraðabreytingum,“ sagði Ingólfur eitt sinn við pistlahöfund.

Ragnar Jónsson hafði nóg að gera í leiknum gegn Svíum; hljóp með knöttinn út um allan völl. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 „Ertu ræfill…!?“

 Þegar Svíar voru tveimur leikmönnum fleiri á 10. mín. síðari hálfleiksins tóku þeir til þess ráðs að leika maður gegn manni – sex harðsnúnir og reynslumiklir Svíar gegn fjórum Íslendingum. Svíar með knöttinn, en öllum til undrunar ná Íslendingar knettinum og þá var það foringinn og fyrirliðinn á leikvelli, Ragnar Jónsson, sem sýndi að hann væri réttur maður á réttum stað. Það var ákveðið að hann ætti að einleika með knöttinn fram og aftur, með sína menn alltaf tiltæka ef hann kæmist í þröng. Hjalti var kominn út á völl og áhorfendur hrópuðu af æsingi. Íslendingar misstu knöttinn; Svíar skora 8:7. Klukkan tifar og eltingaleikurinn hefst út um allan völl – Ragnar með knöttinn, en sendir hann við og við til samherja, þess á milli sem hann einlék í kringum sænsku leikmennina.

 Ekki var langt í að Gunnlaugur og Ingólfur kæmu aftur inná, er Svíar ná knettinum; Hjalti ver við mikinn fögnuð áhorfenda, sem fögnuðu síðan er Gunnlaugur og Ingólfur komu inná. Hinar löngu tvær mínútur voru liðnar.

Ragnar sagði pistlahöfundi, að hann gleymi aldrei kaflanum þegar Svíarnir voru tveimur fleiri á vellinum. „Ég hef aldrei verið eins þreyttur eftir neinn leik og leikinn gegn Svíum í Bratislava. Það tók mjög mikið á þegar við vorum tveimur færri inn á. Ég var gjörsamlega búinn og sagði þá við Sigurð Einarsson, sem var þá inná; „Nú verð ég að fara út af til að hvíla mig.“ „Ertu ræfill…,!?“ öskraði Sigurður þá til mín, en hann var þekktur fyrir sitt mikla keppnisskap.

 Ég hugsaði þá með mér að ég skyldi sýna honum að ég ætti dálítið eftir og hélt áfram á fullum krafti. Það sem mér þótti skemmtilegast, var að ég gat baunað á Sigurð sömu glósunni og þegar hann lét mig fá það óþvegið, stuttu síðar – þegar Sigurður var að springa.“

 * Ragnar var engin viðvaningur við að rekja knöttinn. Hann þekkti þær hreyfingar vel, enda snjall körfuknattleiksmaður og Íslands- og Reykjavíkurmeistari með ÍR 1960.

 Vaknað upp við vondan draum

 Eftir sigurinn á Svíum töldu sérfræðingar á HM að Ísland færi áfram,  myndi leggja Ungverja að velli. Íslendingar máttu tapa með fimm marka mun, en þeir vöknuðu upp við vondan draum – töpuðu með 9 marka mun, 12:21 og Ungverjar komust áfram með betri markatölu.

  Geysileg vonbrigði urðu hjá Íslendingum og menn veltu fyrir sér; Hvað gerðist? Voru Íslendingar of sigurvissir, eftir leikinn gegn Svíum? Það getur vel verið, en leikmenn Íslands náðu sér ekki á strik í vörn og sókn, og þá var markvarslan ekki góð.

 Það var ljóst að fámennur hópur Íslands var þreyttur eftir sigurinn á Svíum, sem tók mikinn toll. Leikmenn Íslands voru óvanir að leika mikla keppnisleiki í stórum sal. „Við höfðum einfaldlega ekki þrek til að leika þrjá leiki á fjórum dögum. Við áttum að vinna Egypta með miklu meiri mun en átta mörkum. Þar sem við þekktum ekki til Egypta, tók það okkur of langan tíma til að átta okkur á þeim,“ sagði Gunnlaugur.

Gleðistund! Búið er að flauga til leiksloka í leiknum gegn Svíum, 12:10. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

 Wadmark í herbúðum Ungverja

 Sænska blaðið Expressen sagði frá því að Curt Wadmark, þjálfari Svía, hafi átt mikinn þátt í sigri Ungverja á Íslendingum. Hann hafði allan daginn fyrir leikinn verið á fundum með Ungverjum og lagt upp leikskipulag ungverska liðsins gegn Íslendingum og bent Ungverjum á veikleika íslensku leikmannana. Wadmark hafði stofnað Ungverjahjálp, til að tryggja að Svíar kæmust með tvö stig í milliriðil, en ekki Íslendingar.

 Tjaldið féll – of mikið álag á fáum mönnum, 11 í liði. Leikurinn við Svía tók of mikinn toll! Íslendingar fóru strax heim. Fjárhagur HSÍ leyfði ekki að landsliðsmennirnir yrðu áfram til að fylgjast með úrslitaleikjunum og læra.

 Það er oft leiðinlegt að vera fátækur! var sagt þegar Íslendingar héldu með næturlest til Kaupmannahafnar, til að ná flugi heim.

 Staðan og markaskor

 Lokastaðan var þessi í B-riðli. Svíar og Ungverjar komust áfram í milliriðil:

Svíþjóð320151:314
Ungverjaland320145:364
Ísland320140:394
Egyptaland300328:580

 Þeir sem léku fyrir Ísland/skoruðu, voru: Gunnlaugur 3/11, Ragnar 3/7, Ingólfur 2/6, Örn 3/5, Hörður 3/5, Sigurður 3/3, Guðjón 3/2 Karl J. 2/1, Hjalti 3, Guðmundur 3, Birgir 2, Einar 3.

 Fékk önd í sárabætur!

 Þrír leikmenn voru tilbúnir að fara til Tékkóslóvakíu ef Ísland kæmist í milliriðil. Þeir voru búnir að fá vegabréfsáritun og tilbúnir að pakka niður í ferðatöskur. Leikmennirnir voru Þorsteinn Björnsson, Ármanni, markvörður, Páll Eiríksson, FH og Árni Samúelsson, Ármanni. Páll sagði pistlahöfundi þannig frá seinna: „Við urðum að sjálfsögðu mjög sárir að fara ekki með til Tékkóslóvakíu. Ég hitti Ásbjörn Sigurjónsson, formann HSÍ, í Kaupmannahöfn nokkrum árum seinna. Hann sagði að það hafi verið mistök að hafa ekki farið með fullmannaðan leikmannahóp í ferðina.” Í sárabætur bauð Ásbjörn Páli í mikla átveislu á veitingahúsi í Kaupmannahöfn. „Ég hefði frekar vilja missa af öndinni, þó hún hafi verið góð, en heimsmeistarakeppninni.“

 Svíar léku til úrslita!

* Svíþjóð, Ungverjaland, V-Þýskaland og Júgóslavía léku saman í milliriðli. Svíar fengu 4 stig, V-Þjóðverjar 3, Júgóslavar 3 og Ungverjar 2 stig.

* Rúmenía, Tékkóslóvakía, Sovétríkin og Danmörk léku saman í milliriðli. Rúmenar fengu 6 stig, Tékkar 4, Sovétmenn 2 og Danir ekkert.

  Rúmenar vörðu heimsmeistaratitil sinn með því að leggja Svía í úrslitaleik.

1. sæti: Rúmenía - Svíþjóð           25:22
3. sæti: Tékkóslóvakía - Vestur-Þýskaland 22:15
5. sæti: Sovétríkin - Júgóslavía     27:18
7. sæti: Danmörk - Ungverjaland      23:14
* Síðan komu: 9: Ísland, 10: Austur-Þýskaland, 11: Noregur, 12: Sviss, 13: Japan, 14: Frakkland, 15: Egyptaland og 16: Bandaríkin.

 * Sérfræðingar töldu að Íslendingar hefðu leikið um verðlaunasæti ef þeir hefðu farið með 2 stig í milliriðil, með sigrinum á Svíum.

 Dansinn dunar

Ég hef það á tilfinningunni að dansinn eigi eftir að duna í Svíþjóð næstu daga. Því reikna ég með að vera með tónsprotann (pennann) á lofti um helgina.

Tak så mycket,

På återseende!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -