Sautján ára landslið karla í handknattleik hefur leik á Ólympíuhátið Evrópuæskunnar gegn spænska landsliðinu á mánudaginn. Auk spænska landsliðsins eru landslið Króatíu og Norður Makedóníu með íslenska liðinu í riðli á hátíðinni en alls taka átta landslið þátt. Þeim er skipt niður í tvo riðla.
Riðlakeppnin stendur yfir fram á miðvikudag. Frí verður á fimmtudaginn áður en leikið verður til úrslita á laugardag og sunnudag.
Íslensku piltarnir hafa lagt nótt við dag síðustu vikur við æfingar auk þess sem þeir léku tvo vináttuleiki við Færeyinga ytra í síðasta mánuði.
Ísland hefur átt nánast fast sæti með piltalið á Ólympíuhátíðinni um árabil. Ólympíuhátíðin fer fram annað hvert ár undir verndarvæng Evrópsku Ólympíunefndarinnar.
Íslenska piltalandsliðið hafnaði í 5. sæti á hátíðinni sem fram fór fyrir tveimur árum. Liðið vann fjóra leiki af fimm, tapaði fyrir Þýskalandi sem lék til úrslita.
U17ÓÆ: Dramatískt sigurmark – Ísland í 5. sæti
Dagskrá 17 ára landsliðs karla:
Mánudagur 21. júlí: Spánn - Ísland, kl. 14.
Þriðjudagur 22. júli: Ísland - Króatía, kl. 14.
Miðvikudagur 23. júlí: N-Makedónía - Ísland, kl. 16.15.
Föstudagur 24. júlí: Krossspil á milli riðla.
Laugardagur 25. júlí: Leikið um sæti eitt til átta.
- Í hinum riðlinum eiga sæti landslið Noregs, Portúgal og Ungverjaland og Þýskaland.
Íslenski keppnishópurinn:
Alex Unnar Hallgrímsson, Fram.
Anton Frans Sigurðsson, ÍBV.
Anton Máni Francisco Heldersson, Valur.
Bjarki Snorrason, Valur.
Freyr Aronsson, Haukar.
Gunnar Róbertsson, Valur.
Kári Steinn Guðmundsson, Valur.
Kristófer Tómas Gíslason, Fram.
Logi Finsson, Valur.
Matthías Dagur Þorsteinsson, Stjarnan.
Ómar Darri Sigurgeirsson, FH.
Örn Kolur Kjartansson, Valur.
Patrekur Smári Arnarsson, ÍR.
Ragnar Hilmarsson, Selfossi.
Sigurmundur Gísli Unnarsson, ÍBV.
Þjálfari: Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Þjálfari: Snorri Steinn Guðjónsson.
Þjálfari/flokksstjóri: Andri Sigfússon.



Ólympíuhátíðin er fyrir evrópsk ungmenni á aldrinum 14-18 ára. Ísland mun eiga 49 keppendur í sex greinum auk handbolta; borðtennis, badminton, götuhjólreiðum, frjálsíþróttum, júdó og áhaldafimleikum.
- Hægt verður að fylgjast með beinu streymi frá öllum keppnisgreinum á EOCTV.org
- Úrslit og keppnisdagskrá má finna hér: Schedule – Skopje 2025 – Sport Europe