- Auglýsing -
- Birta Rún Grétarsdóttir og samherjar hennar í Fjellhammer voru í gær fyrstar til þess að vinna stig af Larvik á þessu keppnistímabili í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik og það á heimavelli Larvik. Leiknum lauk með jafntefli, 28:28. Með jafnteflinu lyfti Fjellhammer-liðið sér upp úr neðsta sæti deildarinnar upp í það næst neðsta með tvö stig. Larvik er áfram efst með 13 stig að loknum sjö viðreignum.
- Birta Rún skoraði eitt mark í leiknum og átti einnig góðan leik í vörn Fjellhammer.
- Hákon Daði Styrmisson og liðsfélagar í Eintracht Hagen settust í efsta sæti 2. deildar þýska handknattleiksins í gærkvöld. Hagen vann HSG Krefeld Niederrhein, 36:33, á útivelli og er efst með 15 stig eftir níu leiki. Bietigheim sem var efst fyrir leikina í gærkvöld tapaði fyrir Hüttenberg, 27:22.
- Hákon Daði var næst markahæstur leikmanna Hagen með átta mörk í 11 skotum, þrjú þeirra skoraði hann úr vítaköstum. Einnig vann hann boltann einu sinni í vörninni svo úr varð hraðaupphlaup.
- Sveinn Jóhannsson skoraði þrjú mörk í þremur skotum þegar Chambéry vann Istres, 33:27, í efstu deild franska handknattleiksins í gær. Leikið var á heimavelli Istres. Sveinn og liðsfélagar í Chambéry sitja í áttunda sæti deildarinnar með átta stig að loknum átta viðureignum.
Vinsælt lesefni:
- Auglýsing -




